141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir ágæta ræðu hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar. Ég get ekki tekið undir ræður flokksfélaga hans sem greinilega eru við það að fara á límingunum út af prófkjörum sem eru í gangi. Það er hins vegar ágætt að í þeim ræðum sem hér hafa verið fluttar hafa ýmsir sýnt sitt rétta andlit, ef ég má orða það þannig. Mér virðist Samfylkingin vera komin svo langt til vinstri að hún sé komin vinstra megin við Vinstri græna sem er kannski svolítið langsótt. Hvað um það, það hefur komið fram hér að menn túlki það þannig að það sem kom fram í skoðanakönnuninni um stjórnarskrána varði sjávarútveginn, að það sé sjávarútvegurinn sem eigi að greiða auðlindagjald. Við hljótum að horfa á allar auðlindir ef við túlkum þessa niðurstöðu með þessum hætti. Það hlýtur að vera orkan, það hlýtur að vera heita vatnið, Orkuveita Reykjavíkur hlýtur að falla undir þetta allt saman. Það hljóta að vera þeir sem nota náttúru landsins, hún er auðlind, það hlýtur að vera. Þeir sem tala svona þurfa að skýra mál sitt örlítið betur.

Í orðum einstakra þingmanna áðan birtist ótrúlegt hatur sem mér finnst skína í gegn gagnvart sjávarútveginum. Svo eru það efasemdir um landbúnaðinn sem koma í gegn hjá Samfylkingunni, en þarna sjáum við hennar rétta andlit. Samfylkingin virðist ekki hafa nokkurn einasta metnað eða neina einustu samvisku gagnvart íslenskri framleiðslu, hvar sem á hana er litið. Það er alveg augljóst, frú forseti.

Það sem ég vil segja á lokasekúndunum er að það er áhyggjuefni þegar stutt er til kosninga hvernig Samfylkingin leggur upp málflutning sinn og baráttu. Ætlar Samfylkingin virkilega að tala sig þannig út í horn að hún verði ekki flokkur sem hægt er að starfa með eftir kosningar vegna öfgafulls málflutnings í atvinnumálum og Evrópumálum? Er það virkilega stefna Samfylkingarinnar að haga máli sínu þannig að hún verði flokkurinn sem enginn vill tala við eftir kosningar vegna þess að hún er öfgafyllsti flokkurinn á Íslandi þegar kemur að því að ræða mikilvægustu mál dagsins?