141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

störf þingsins.

[13:50]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kveð mér hljóðs til að ræða sérstaklega þær áhyggjur sem ég hef eftir ferðir mínar um kjördæmi mitt undanfarna daga þar sem ég hef hitt margt fólk sem vinnur dagsdaglega með ungu fólki. Þessar raddir voru mjög samhljóða, þetta fólk hefur mikla áhyggjur af því hvernig andleg heilsa margs ungs fólks er núna. Margt af þessu unga fólki er mjög kvíðið, það á erfitt með að einbeita sér, það hefur ákveðin einkenni þunglyndis og það fólk sem ég hef hitt sem hefur starfað með ungu fólki um árabil segir þetta verulegt áhyggjuefni, þetta sé vaxandi og að þetta unga fólk hafi mikla þörf fyrir að ræða um þetta og vilji gjarnan leita einhverra lausna.

Mér finnst skipta mjög miklu máli að við hlustum á þessar raddir og tökum þetta alvarlega. Sem betur fer hefur þessi ríkisstjórn ákveðið að forgangsraða í þágu barna og ungmenna og mér finnst að þarna þurfum við að koma að málum. Þessi börn þurfa einhver verkfæri til að komast yfir þessa vanlíðan sína og læra að lifa með henni. Meðal verkfæranna eru að sjálfsögðu lyf en ég held að það sem við eigum að leggja áherslu á sé vinna með fagaðilum og að finna meðferðir sem oft og tíðum eru ekki mjög flóknar og ekki mjög dýrar og hægt að vinna til dæmis í hóp þannig að við réttum þessu unga fólki sem er að hefja fullorðinsár sín ákveðin verkfæri til að vinna með. Það má spyrja: Hvað gerir maður þegar manni líður illa? Þetta finnst mér skipta mjög miklu máli. Við vitum að það að fara af stað í ákveðnar forvarnir er miklu ódýrara en þegar í óefni er komið og við þurfum að fara út í klínískar meðferðir.

Unga fólkið okkar er framtíð Íslands. Við verðum að hlusta á svona raddir og við verðum að forgangsraða í þágu þessa unga fólks. Við þurfum að búa okkur til geðheilbrigðisstefnu með (Forseti hringir.) sérstaka áherslu á ungt fólk.