141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

störf þingsins.

[13:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla að ræða um fjárhagslega hagsmuni heimilanna og byrja á skuldunum. Núna fjórum árum eftir hrun er þannig komið fyrir mörgum heimilum, og hefur verið öll þessi fjögur ár, að menn vita ekki hvað þeir skulda. Þar af leiðandi vita þeir heldur ekki hvað þeir eiga. Þetta er óþolandi staða.

Einhvern tímann árið 2009 flutti hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson frumvarp um að flýta allri málsmeðferð hrunmála í dómskerfinu. Það fékk því miður ekki framgang. Ég veit að við breytum ekki fortíðinni en ég skora á alla sem koma að þessu að flýta því að fá úrskurði um hvað fólk á og hvað það skuldar.

Síðan eru það eignirnar. Í lífeyrissjóðunum, með þvinguðum sparnaði, á hvert heimili að meðaltali 20 milljónir, þ.e. virði réttinda heimilanna í lífeyrissjóðunum eru 20 milljónir á hvert einasta heimili í landinu. Þetta eru fjárhagslegir hagsmunir heimilanna. Auk þess eiga heimilin að meðaltali frjálsan sparnað upp á um 5 milljónir. Það er enginn sem er að gæta þessara hagsmuna sérstaklega á Alþingi, ég hef ekki heyrt um það. Ég vil að sjóðfélagarnir komi frekar að stjórn lífeyrissjóðanna þannig að þeir geti haft áhrif á þetta mikla fé sem þeir eiga. Þetta er meira en heimilin eiga í íbúðunum sínum, töluvert miklu meira, því að þetta er nettó.

Svo vil ég að menn fari að skoða hvað er að gerast með innlendan sparnað. Í 4–5% verðbólgu rýrnar þessi innlendi sparnaður um 5 milljarða á ári. Það er óskapleg blóðtaka. Þessi innlendi sparnaður rýrnar mjög hratt og við hv. þingmenn verðum að grípa til ráðstafana um að gæta þessa sparnaðar. Fyrir utan það að bera neikvæða vexti eru þeir vextir skattaðir við 20%.