141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég fagna allri umræðu um skattstefnu ríkisstjórnarinnar og áherslu Sjálfstæðisflokksins þó að ég verði reyndar að lýsa yfir ákveðinni furðu á því að hver stjórnarliðinn á fætur öðrum virðist hafa mikla og ríka tilhneigingu til að tengja Sjálfstæðisflokkinn og stefnu hans við stefnu Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum. Það er algjörlega úr lausu lofti gripið þó að ég og annar þingmaður í Sjálfstæðisflokknum hafi sótt ráðstefnu hægri sinnaðra og miðjuflokka sem komu saman á ársfundi Repúblikanaflokksins. Þar voru sem sagt þingmenn úr fjölmörgum Evrópusambandsríkjum og alls staðar að úr heiminum alveg til Ástralíu.

Því er haldið á lofti að með þessu hljóti að vera ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn ætli að taka upp sömu stefnu og Repúblikanaflokkurinn og innleiða á Íslandi einhverja sérstaka skattstefnu sem eigi að ívilna tekjuhæsta fólkinu. Ég kalla eftir því að menn bendi á dæmi um þetta en vek um leið athygli á því að þessi ríkisstjórn hefur hækkað skatta á alla Íslendinga, líka þá tekjulægstu, og hún hefur komið sérstaklega illa fram við eldri borgara. Auðlegðarskatturinn sem er ekkert annað en eignaupptökuskattur leggst á alla, óháð tekjum. Árið 1994 var hann dæmdur ólögmætur í Þýskalandi, hann stenst ekki þýsku stjórnarskrána og var lagður niður þar í landi á þeim forsendum sem eignaupptökuskattur. Til dæmis borga eldri borgarar 2 milljarða í auðlegðarskatt, þar af koma um það bil 400 milljónir frá eldri borgurum í þessu landi sem eru með í kringum 80 þús. kr. í tekjur á mánuði og minna.

Þetta er skattstefna ríkisstjórnarinnar. (Forseti hringir.) Þetta er ríkisstjórnin sem kom eldri borgurum út af vinnumarkaði árið 2009 með því að tekjutengja bætur þeirra og laun (Forseti hringir.) með þeirri skýringu að það þyrfti að koma þessu fólki af vinnumarkaði til að koma öðrum að. Eldri borgarar voru settir í fátækragildrur. (Forseti hringir.) Þetta er stefnan sem menn eru að verja og benda síðan á Sjálfstæðisflokkinn algjörlega rakalaust og kenna hann (Forseti hringir.) við stefnu sem er í einhverjum fjarlægum löndum. Það er ótrúleg málefnafátækt.

(Forseti (ÁRJ): Forseti minnir þingmenn á að virða ræðutímann.)