141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

afleiðingar óveðursins á Norður- og Norðausturlandi í september.

[14:36]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Hamfarir eru prófsteinn á innviði samfélaganna. Þegar Múlakvísl tók brúna í fyrrasumar var komin ný brú eftir viku. Þegar rafmagn fer af á Íslandi er því kippt í liðinn á tiltölulega skömmum tíma. Þegar ofsaveður gekk yfir New York var rafmagnslaust þar í eina viku. Þetta eru staðreyndir sem við skulum hafa í huga og þakka fyrir það sem vel er gert á Íslandi þegar veður ganga hér yfir og vísa ég þar til góðs starfs almannavarna sem sanna aftur og ítrekað gildi sitt.

Staðreyndirnar eru þessar: Ofsaveður gekk yfir Norðurland í fyrri hluta september. Önnur staðreynd: Enginn spáði þessu fyrir, engin varnaðarorð voru gefin út. Strax og ljóst varð hvaða hætta var á ferðinni brugðust menn við. Ég vek athygli á frumkvæði sýslumannsembættisins á Húsavík í því efni. Um leið og Almannavörnum bárust kallið var brugðist við.

Núna eru menn að fara yfir þær brotalamir sem þarna kunna að hafa verið. Ég vék að því í upphafsorðum mínum hvað hefði gerst í rafmagnsmálum og í fjarskiptamálum. Rarik, Landsnet, Míla, Síminn og Vodafone eru að skoða viðbrögðin og hvað fór úrskeiðis. Það verður gerð skýrsla um málið af hálfu Almannavarna og allra þeirra sem komu að málum. Reynt verður að sjá til þess að skaði manna verði bættur.

Spurt var um áfallahjálp. Hún var í boði af hálfu heilbrigðisyfirvalda á Norðausturlandi.

Ég vil í lokin geta þess að björgunarsveitir hafa lagt um 10 þús. vinnustundir í þetta verkefni. Til samanburðar eru vinnustundirnar um helmingi fleiri en björgunarsveitir unnu í Eyjafjallagosinu 2010. Ég vil nota þetta kærkomna tækifæri til að þakka öllum þeim sem komu að björgunaraðgerðum og unnu saman af mikilli ósérhlífni og dugnaði við að bjarga verðmætum. Nú er það okkar að draga lærdóma af öllu því sem úrskeiðis fór en fyrst og fremst eigum við (Forseti hringir.) að þakka þeim sem lögðu hönd á plóg.