141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

fjarskiptasjóður og forgangsverkefni hans.

[14:45]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvar ég á eiginlega að byrja en mig langar þó að byrja á því að segja að Íslendingar eiga heimsmet í nettengingum. Það er rangt að staðan sé verri hér á landi en annars staðar á Norðurlöndum. (Gripið fram í: Gæti verið betri.) — Gæti verið betri, það er alveg rétt, það er margt sem gæti verið betra á Íslandi og við erum að vinna að því að bæta það.

Ég vil vekja athygli þingmannsins á því að fjarskiptaáætlun hefur verið lögð fram á Alþingi. Hún hefur ekki verið afgreidd frá þinginu en ég hef mælt fyrir henni. Hún er núna til umfjöllunar í nefnd. Í henni er tilgreindur fjöldi markmiða og verkefna sem snerta meðal annars aðgengi og afköst í gagnaflutningi, aðkomu stjórnvalda og þar af leiðandi ljósleiðaravæðingu og útbreiðslu farnets.

Ég vek athygli á því að framkvæmdir vegna verkefna fjarskiptasjóðs eru boðnar út. Þar er um að ræða tvö meginverkefni, að GSM-farsímaþjónusta verði aðgengileg á þjóðvegi 1, öðrum helstu stofnvegum og helstu ferðamannastöðum og í öðru lagi að allir landsmenn sem þess óska hafi aðgang að háhraðatengingum. Uppbyggingu í kjölfar tveggja útboða sjóðsins árið 2007 á GSM-uppbyggingu lauk fyrir árslok 2008. GSM-samband var bætt á yfir 50 vegarköflum og svæðum um allt land. Svokallað háhraðanetsverkefni var boðið út árið 2008.

Nú er svo komið að hvert og eitt einasta lögheimili landsins á kost á sítengdu internetsambandi hvort heldur er á markaðsforsendum eða gegnum verkefni sjóðsins. Fram að síðustu áramótum bjó fjarskiptasjóður við sólarlagsákvæði. Við þær aðstæður voru engar forsendur til að undirbúa frekari verkefni á hans vegum. Um síðustu áramót var líftími hans framlengdur um fimm ár auk þess sem hann fær nú tekjur af tíðniuppboðum. Nú þegar hafa komið um 180 millj. kr. tekjur í sjóðinn vegna tíðniuppboða en eins og kom fram í Fréttablaðinu í gær, held ég að það hafi verið, er gert ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun bjóði út tíðnir sem henta til uppbyggingar á fjórðu kynslóðar farneti, svokölluðu 4G. Það er ekki auðvelt að ætla á þessari stundu hversu miklar tekjur munu renna til sjóðsins í því uppboði en rætt hefur verið um 300 millj. kr. eða svo í því sambandi. Ljóst er að slík uppbygging hleypur á milljörðum kr. og óvíst á þessu stigi um áform markaðsaðila, sérstaklega í hinum dreifðu byggðum.

Ég bendi mönnum á að missa ekki sjónar á því sem hefur gerst í þessum efnum. Hvaða breytingar urðu þegar Síminn var markaðsvæddur á sínum tíma? Við vorum með kerfi sem var rekið á vegum ríkisins. Það símkerfi skilaði okkur reyndar umtalsverðum hagnaði á ári hverju, á þeim tíma 2–3 milljörðum, auk þess sem okkur var tryggt ódýrasta símkerfi í heiminum. Innanlandssíminn á Íslandi var ódýrastur í heiminum. Þegar umræða fór síðan fram í þessum sal um hvernig við ættum að haga málum þá vildu margir að grunnnetið allt yrði áfram á vegum ríkisins. Á það var ekki fallist. Af því tilefni að þingmaðurinn rifjar upp ályktanir frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og þess vegna Samfylkingunni vil ég minna hann á að það var ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem ákvað að fara þessa vegferð. (SIJ: Gamla Framsókn.) — Gamla Framsókn, þið kallið ykkur enn nafni Framsóknarflokksins. Það varð niðurstaða þeirrar ríkisstjórnar að fara þessa vegferð. En til að tryggja þeim landsmönnum sem ekki mundu njóta árangurs af markaðskerfinu var settur upp fjarskiptasjóður. Hann átti að fjármagna þau svæði sem markaðslögmálin og fyrirtækin hefðu ekki áhuga á. Eins og ég gat um var ætlunin sú að sá sjóður starfaði í tiltölulega stuttan tíma. Ég hafði hins vegar frumkvæði að því að framlengja líf þessa sjóðs til að fara inn á svæði sem markaðurinn réð ekki við eða sinnti ekki. Inn á önnur svæði höfum við ekki heimild til að fara. (Gripið fram í.) Hvers vegna? Nema breyta þeim? Við erum háð regluverki Evrópska efnahagssvæðisins um hvernig eigi að haga þessum málum, sem Framsóknarflokkurinn hafi líka veg og vanda af að innleiða á sínum tíma. Þetta eru staðreyndir sem hv. þingmaður verður að horfast í augu við. Þetta er veruleikinn.

Nú er komin upp ný tíð á Íslandi og við verðum að laga allar okkar gjörðir að (Forseti hringir.) þessum nýja veruleika og það erum við að reyna að gera.