141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

fjarskiptasjóður og forgangsverkefni hans.

[14:50]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Fjarskiptasjóður hefur valdið vonbrigðum frá upphafi. Ákvörðun ríkisstjórnarflokkanna á sínum tíma, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, reyndist þeim til skammar vegna þess að sjóðurinn klikkaði. Hann hefur aldrei náð sér á strik, hann hefur aldrei tekið ákvarðanir með hagsmuni heildarinnar í huga heldur alltaf geðþóttaákvarðanir. Líklega eru of margir hámenntaðir sérfræðingar þar um borð sem geta ekki tekið af skarið, geta ekki tekið ákvarðanir.

Það er rétt sem hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson sagði að tugur fyrirtækja varð í rauninni þröskuldur í framgangi fjarskiptaáætlunar á landinu. Gott dæmi um það væri hægt að nefna uppsveitir Suðurlands og víðar um land.

Það þarf að skipta um stjórnendur fjarskiptasjóðs, hæstv. ráðherra, það þarf að breyta leikreglunum og ganga til verka. Þetta er eini sjóðurinn í landinu sem hefur um langt árabil búið við mikla peninga, nóg af peningum, en hann vinnur eins og Norðmenn sem eiga nóga peninga en eru svo nískir að þeir trúa ekki einu sinni á líf fyrir dauðann. Þannig á fjarskiptaþjónustan á Íslandi ekki að vera, það verður að vera framsýni.

Míla er til að mynda apparat sem maður gæti haldið að væri frá annarri stjörnu og eru mikil mistök að það fyrirtæki skuli ekki vera í eigu ríkisins í dag. Það þarf að kaupa þá sjoppu í heilu lagi og gera hana brúklega fyrir land og þjóð en ekki vera með þann feluleik sem er í þeim efnum um allt.

Þannig er staðan. Ég tek undir orð hv. fyrirspyrjanda, það verður að taka af skarið og sinna þessum þáttum. Ég skora á ráðherra að láta nú hendur standa fram úr ermum og koma á ærlegu fjarskiptakerfi um allt land því að það er til nóg af peningum í það. (Forseti hringir.) Til hvers að geyma þá undir kodda?