141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

fjarskiptasjóður og forgangsverkefni hans.

[15:00]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Þau varnaðarorð sem höfð voru uppi við einkavæðingu Símans hafa því miður gengið eftir. Því var spáð að uppbygging grunnnetsins í fámennari byggðarlögum á landsbyggðinni yrði látin mæta afgangi og það er einmitt sá veruleiki sem mörg fámennari svæði búa við. Símafyrirtækin hafa ekki sinnt uppbyggingu grunnnetsins á óhagkvæmari stöðum og þar sitja íbúar og fyrirtæki ekki við sama borð og aðrir landsmenn hvað varðar háhraðatengingar og fullan aðgang þeim sjónvarpsrásum sem eru í boði.

Síminn telur það ekki hlutverk sitt að tryggja jafnan aðgang landsmanna að nettengingu og vísar til fjarskiptasjóðs. Í lögum um fjarskiptasjóð kemur fram að hlutverk hans sé að styðja við uppbyggingu fjarskiptakerfa á svæðum þar sem fjarskiptafyrirtæki hafa ekki treyst sér í uppbyggingu á markaðslegum forsendum. Hlutverk fjarskiptasjóðs er því gífurlega mikilvægt í byggðalegu tilliti og brýnt að sjóðurinn sinni vel hlutverki sínu og úthluti fjármagni í verkefni sem kveðið er á um í fjarskiptaáætlun hverju sinni. Sú forgangsröðun skiptir miklu fyrir búsetuskilyrði í dreifðum byggðum, þjónusta við íbúana verður að vera í lagi og uppbygging atvinnulífs getur staðið og fallið með öflugri háhraðatengingu.

Ég nefni staði fyrir vestan sem ég þekki vel til, Hnífsdal, Suðureyri, Þingeyri, og Flateyri. Þar eru komnir ljósleiðarar en endastöðvabúnaðurinn er gamall og kemur í veg fyrir öfluga háhraðatengingu. Sömu sögu er að segja um allt of marga staði á landsbyggðinni. Útibú Innheimtustofnunar sveitarfélaga á Flateyri getur ekki bætt við sig starfsfólki vegna lélegrar nettengingar. Það er óásættanlegt og kemur í veg fyrir uppbyggingu á atvinnulífi í þeim byggðum sem ekki búa við þessar háhraðatengingar.

Það má líka koma fram að Míla, sem er einkarekið þjónustufyrirtæki, hefur einungis einn starfsmann á öllum Vestfjörðum og annar þess vegna ekki hlutverki sínu. Þess vegna tel ég mikilvægt að við endurskoðum þessi mál í því samhengi og tryggjum aðgengi allra landsmanna að þessari sjálfsögðu (Forseti hringir.) þjónustu sem og öryggi íbúa alls staðar á landinu.