141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[15:15]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Lúðvík Geirsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um rannsókn á einkavæðingu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf., frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Málið er endurflutt frá síðasta þingi. Nefndin fjallaði ítarlega um málið í fyrravor og almenn samstaða var um það innan nefndarinnar að hér væri hreyft máli sem full ástæða væri til að fylgja eftir og fá niðurstöðu í þær ýmsu spurningar sem velt er upp í ítarlegri tillögu og greinargerð sem henni fylgir.

Í upphaflegu tillögunni var gengið út frá því að niðurstaða slíkrar rannsóknar lægi fyrir 15. mars á komandi ári, en ljóst er að liðið er vel á þetta ár og tíminn orðinn knappur. Því er lögð fram breytingartillaga að „í stað orðanna „15. mars 2013“ í lokamálsgrein tillögugreinar komi: 1. september 2013.“

Reyndar hafði framsögumaður, sá sem hér talar, lagt fram fyrir þessa umræðu breytingartillögu við þá breytingartillögu þess efnis að rannsókn yrði lokið um miðjan apríl 2013. Ég taldi og hef talið brýnt, og ýmsir eru mér sammála í því, að nauðsynlegt sé að ljúka málinu á þessu kjörtímabili.

Að athuguðu máli verður hins vegar að horfa til þess að mjög hefur dregist að þær rannsóknarnefndir sem eru að störfum eins og stendur varðandi húsnæðiskerfið og sparisjóðina hafi náð að ljúka störfum sínum. Tíminn sem þeim var skammtaður hefur verið knappari en svo að hægt hafi verið að fylgja því eftir innan þeirra tímamarka. Gangandi út frá því — sem ég tel nokkuð víst — að Alþingi muni samþykkja tillöguna sem komin er til 2. umr. má reikna með að rannsókn geti hafist upp úr komandi áramótum og verður að horfa til þess að þrír og hálfur mánuður er knappur tími.

Það skiptir meiru að vel sé vandað til verka, farið verði ítarlega yfir málið og það skoðað frá öllum hliðum frekar en að menn flýti sér þannig með það að ýmsum spurningum verði enn ósvarað, eins og hefur verið í þessu máli alla tíð. Það hefur skapað þá óvissu og þá umræðu sem menn hafa verið sammála um að þurfi að ljúka með því að fá allar niðurstöður samanteknar á einn stað.

Ég mun því falla frá þeirri breytingartillögu minni við lokaafgreiðslu málsins en held mig við þá tillögu sem lögð er til, að málið fái umfjöllun og yfirferð væntanlegrar rannsóknarnefndar fram á haustdaga 2013.

Í tillögu þeirri sem hv. þm. Skúli Helgason og fleiri fluttu upphaflega og er aftur komin á dagskrá þingsins er í greinargerð rakið ítarlega hvaða áherslur rétt er að horfa til varðandi slíka rannsókn. Segja má að við séum orðin reynslunni ríkari, Alþingi og þeir aðilar sem hafa komið að slíkum rannsóknum, hvernig þurfi að undirbúa slíka hluti, til hvers þurfi að horfa í þeim efnum. Það skiptir máli að ramma verkefnið skýrt inn, setja því verklegan ramma og tímaramma þannig að við getum bæði út frá fjárhag og tímasetningum horft til þess að ná fram þeim upplýsingum og þeim lykilatriðum sem máli skipta og að verkið vinnist á eðlilegum tímaramma.

Þess vegna er mjög ánægjulegt að sjá hvernig þingsályktunartillagan er fram sett þar sem bornar eru fram lykilspurningar sem í raun og veru skipta miklu og draga fram þau atriði sem vert er að rannsóknarnefndin hafi til hliðsjónar í störfum sínum.

Talað er um heildstæða rannsókn á einkavæðingu bankanna. Vikið er að því í greinargerðinni varðandi rannsóknarspurningar hvernig einkavæðingarferlið fór fram, hvernig söluferlið fór fram, hvers vegna ekki var fylgt verklagsreglum framkvæmdanefndar, hverjar voru ástæður fyrir því að eignir og félög í eigu bankanna voru seld skömmu fyrir einkavæðingu. Horft er til þess hvers vegna ákveðið var að selja báða ríkisbankana í einu. Margar slíkar lykilspurningar hafa verið uppi í umræðunni.

Horft er til ábyrgðar og aðkomu ráðherra að málinu. Hvaða hlutverki gegndi ráðherranefnd um einkavæðingu í ferlinu? Hver var lagaleg staða hennar og ábyrgð vegna sölu hlutabréfa í bönkunum? Hver var ábyrgð og aðkoma hvers ráðherra fyrir sig sem kom að ákvörðunum um sölu hlutabréfa bankanna? Einnig er talað um að ástæða sé til að rannsaka hvort óeðlileg tengsl, sem hefðu meðal annars getað leitt til vanhæfis, voru milli kaupenda bankans og seljenda.

Vikið er sérstaklega að atriðum sem lúta að hverjum banka fyrir sig. Varðandi sölu Landsbankans: Hvernig var hæfi væntanlegra kjölfestufjárfesta metið? Lá hagstæðara tilboð fyrir? Hvernig var svokallað matslíkan vegna sölu Landsbankans unnið fyrir framkvæmdanefnd um einkavæðingu? Og fleiri atriði eru nefnd.

Á sama hátt varðandi sölu Búnaðarbankans: Hvaða upplýsingar fékk HSBC um þá erlendu banka sem S-hópurinn nefndi sem hugsanlegan erlendan fjárfesti? Hvaða hlutverki gegndi þýski bankinn Hauck & Aufhäuser fyrir S-hópinn við kaup á Búnaðarbankanum? Hvað hefði mátt betur fara í þeirri umgjörð sem var sett um sölu Búnaðarbankans?

Um sölu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins er vikið að því hvaða reglur hafi verið settar um eignarhald á fjármálastofnunum í tengslum við sölu Fjárfestingarbanka atvinnulífsins og hvaða reglur voru settar um sölu hans og hvernig þeim var fylgt eftir. Höfðu stjórnvöld afskipti af sölu hluta í FBA eftir að FBA var komið úr ríkiseign og þá hvaða? Hvað hefði mátt betur fara í þeirri umgjörð?

Síðan er talað um eftirlitsskyldu, efndir samninga og veitingu undanþágna frá samningum, sem er reyndar stórt atriði í þeim málum sem hafa komið upp í umræðunni. Meðal annars hvort gengið hafi verið frá samkomulagi um víxlfjármögnun kaupenda á kaupum á hlutabréfum í ríkisbönkunum og að gefið verði nákvæmt yfirlit yfir það hvernig kaupverðið var greitt samkvæmt dagsetningum og hvenær greiðslur áttu sér stað.

Rétt er að vekja líka athygli á því, vegna þess að við á Alþingi tökum fyrir innan tíðar fjáraukalög fyrir árið 2012, að í þeim má vænta þess að tillaga komi fram um greiðslur ríkisins upp á liðlega 3 milljarða vegna ríkisábyrgða á skuldabréfum sem lágu eftir í Búnaðarbankanum og hafa ekki komið til uppgjörs fyrr en nú, ef Alþingi samþykkir það. Sambærilegt uppgjör fór fram á árinu 2010 varðandi Landsbankann og reyndar Glitni að einhverjum litlum hluta. En varðandi Landsbankann og Búnaðarbankann þá liggur fyrir, a.m.k. samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér um sölusamninga, að í engu er getið um þær ríkisábyrgðir sem lágu fyrir í þeim bönkum og ríkissjóður er núna að greiða út upp á milljarða króna varðandi það að það hefði einhver áhrif á það söluverð sem var samið um við þessi kaup og yfirfærslu til einkaaðila.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að hafa langa framsögu um þetta mál. Ég vísa til þess að nokkuð almenn samstaða hefur verið um það innan stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar að málið fái þann farveg að verða afgreitt á þinginu og fari til yfirferðar rannsóknarnefndar. Áhöld hafa verið um það hvort útvíkka eigi þá rannsókn og með því nefndaráliti sem ég mæli fyrir er fylgiskjal, nefndarálit sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir flytur þar sem hún leggur til víðari úttekt varðandi yfirtöku bankanna eftir hrun.

Ég hef litið svo á, og meiri hluti nefndarinnar, að um aðskilin mál sé að ræða. Það sé sjálfsagt og eðlilegt að fara í slíka úttekt og rannsókn en hún eigi þá að vera sjálfstæð og tekin fyrir sérstaklega. Ég tel að brýnt sé að fylgja ákveðið eftir því máli sem legið hefur fyrir Alþingi í þó nokkurn tíma og ekki fengið framgöngu og afgreiðslu fyrr en þá nú væntanlega, að við séum ekki að lengja þann tíma að fá þá niðurstöðu, en það geti verið mjög eðlilegt og sjálfsagt að þeir aðilar sem fara í þá rannsókn og verður falið það verkefni geti í beinu framhaldi af þeirri vinnu tekið upp þráðinn varðandi þá þætti sem vikið er sérstaklega að í tillögu hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur.

Það er í raun og veru ástæðan fyrir því að við teljum ekki rétt að afgreiða þessi mál tvö í einu heldur að þetta verði aðskilin afgreiðsla.

Virðulegi forseti. Ég vil nefna það sérstaklega sem kom fram við yfirferð málsins í þingnefnd að mjög brýnt er, og kom það skýrt fram í máli þeirra sem kallaðir voru fyrir nefndina, að dregin verði upp heildarmynd af því hvernig þetta einkavæðingarferli átti sér stað og hvernig það fór fram. Það er nauðsynlegt að ná utan um allar aðgengilegar upplýsingar og gögn sem snúa að málinu en ljóst er að það hefur ekki tekist þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir og vilja t.d. fjölmiðla og fræðimanna.

Við höfum í höndum okkar ýmsar ítarlegar greinar sem hafa birst í fjölmiðlum um þetta ferli allt saman, greinar sem meðal annars hafa fengið viðurkenningu Blaðamannafélagsins fyrir vandaða og ítarlega rannsóknarvinnu. Þeir aðilar sem hafa unnið þær úttektir hafa bent á í viðtölum við nefndina að í kerfinu liggi ýmis önnur gögn sem viðkomandi hafi ekki náð að komast í eða haft aðgang að. Sama er að heyra frá þeim fræðimönnum sem hafa verið að skrifa um þessi mál allt fram á síðustu daga og missiri og velta fyrir sér ýmsum þáttum sem lúta að einstökum atriðum einkavæðingarinnar. Þar er sama upp á teningnum að fræðimannasamfélagið hefur heldur ekki getað nálgast allar þær upplýsingar og þau gögn sem ættu að vera aðgengileg og eru vissulega til staðar í málinu.

Þess vegna er mikilvægt að formlegur aðili með umboði Alþingis fari í það verkefni og hafi eins og lög gera ráð fyrir allan þann rétt og alla þá stöðu til að nálgast þau gögn og þær upplýsingar sem þurfa að vera fyrir hendi til að slík úttekt geti verið heildstæð og trúverðug.

Það skiptir auðvitað lykilmáli að af vinnu sem þessari séum við að draga, ekki bara ályktanir og niðurstöður heldur líka lærdóm. Þess vegna er mikilvægt, a.m.k. að mínu mati og margra annarra sem um þetta fjalla, að fylgja málinu eftir og að við drögum lærdóm af því sem betur mátti fara og því sem úrskeiðis fór. Ljóst er að margt fór úrskeiðis og var gert á annan hátt en menn jafnvel höfðu lagt fyrir eða sem menn telja eðlilegt miðað við það sem á að vera í málum sem þessum.

Í raun og veru er það ekki síst lærdómurinn sem við fáum væntanlega tækifæri til að lesa út úr úttekt sem þessari, leiðarvísir fyrir frekara framhald í málum sem þessum. Hvers vegna nefni ég það? Vegna þess að hér liggur fyrir og mun verða eitt af afgreiðslumálum Alþingis, jafnvel nú innan skamms á þessum þingvetri, hvernig eigi að fara með sölu ríkisins á þeim eignarhlutum sem nú hafa myndast að nýju í þessum sömu bankastofnunum.

Við erum í raun og veru komin á þann upphafsreit aftur að ríkið á stóran hlut í Landsbankanum, ríkan meiri hluta og einnig stóran hlut í Arion banka, fyrrum Kaupþingi. Þar hafa verið settar fram af hálfu stjórnvalda, forsætisráðuneytisins, ákveðnar leikreglur og leiðarvísar um það hvernig eigi að standa að slíkri sölu þannig að það sé gert með jafnræði og gegnsæi í huga. En mikilvægt er að við höfum þá uppi á borðum allar þær vísbendingar, athugasemdir og ábendingar sem munu væntanlega koma fram í þeirri skýrslu sem við erum að kalla eftir til að fylla enn frekar í þá mynd og tryggja að staðið verði að þeim málum eins faglega og nokkur kostur er. Þess vegna skiptir miklu að málið fái brautargengi sem hraðast í gegnum Alþingi — við höfum í rauninni beðið allt of lengi eftir því — og að vinnu við úttektina verði hraðað.

Ég ætla ekki að hafa frekari orð um málið. Það skýrir sig sjálft. Þingmenn eru vel upplýstir og þekkja vel til mála. Ég legg til að málinu verði vísað að umræðu lokinni til 3. umr. og afgreiðslu.