141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[15:30]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í tilefni af ræðu hv. þm. Lúðvíks Geirssonar vildi ég benda á að sé ætlunin að fara í gegn með frumvörp á þessu þingi sem fela í sér ráðagerðir um einkavæðingu þeirra eignarhluta sem ríkið á nú í bönkunum mun þessi rannsókn ekki nýtast í því sambandi, tel ég, tímafaktorinn er einfaldlega með þeim hætti, a.m.k. í því sem snýr að þinginu, að væntanlega verður frumvarp um fyrirkomulag við einkavæðingu afgreitt áður en niðurstöður þessara rannsókna liggja fyrir. En látum það liggja á milli hluta.

Ég vildi hins vegar inna hv. þm. Lúðvík Geirsson nánar eftir afstöðu hans til efnis þeirrar tillögu sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hefur lagt mikla áherslu á, að ekki síður verði rannsakað hvernig háttað var hinni síðari einkavæðingu bankanna, sem svo hefur verið kölluð, þ.e. þeirri eignatilfærslu sem átti sér stað þegar (Forseti hringir.) kröfuhafar yfirtóku yfirgnæfandi meiri hluta í Arion banka og Íslandsbanka fyrir skömmu. Telur hv. þingmaður (Forseti hringir.) ekki að það fyrirkomulag og þær ákvarðanir séu (Forseti hringir.) í raun og veru meiri og mikilvægari (Forseti hringir.) í okkar pólitíska samhengi núna (Forseti hringir.) en það sem gerðist fyrir 10–15 árum?