141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[15:33]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Allt er þetta rétt, það má rekja sumt af því sem gerðist hér haustið 2008 til einkavæðingarinnar 2002, sumt lengra aftur, sumt á sér rætur í alþjóðlegu fjármálakerfi og við getum rætt það út frá ýmsum forsendum. Við getum líka velt fyrir okkur hvernig farið hefur hjá þeirri stærstu fjármálastofnun ríkisins sem ekki var einkavædd og er í einhverri gjörgæslu hjá opinberum aðilum í dag. Þá er ég að tala um Íbúðalánasjóð. Ekki hefur ríkiseignarhald á þeirri fjármálastofnun verið trygging fyrir því að allt hafi verið þar í góðu lagi og ekki skapast vandamál. Nóg um það.

Ég vildi hins vegar spyrja hv. þingmann nánar um þetta vegna þess að annars vegar erum við að tala um rannsókn sem vissulega getur verið áhugaverð út frá sagnfræðilegu sjónarmiði (Forseti hringir.) og hins vegar erum við að tala um rannsókn eða athugun sem hefur verulega þýðingu fyrir ríkisfjármálin, fyrir efnahagsmálin, (Forseti hringir.) fyrir afkomu fólks í landinu í dag.