141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[15:34]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Lúðvík Geirsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi Íbúðalánasjóð held ég að menn verði að horfa til þess að sú staða sem Íbúðalánasjóður hefur lent í og við stöndum frammi fyrir og fáum frekari úttekt á í þeirri úttekt sem nú er verið að vinna á auðvitað uppruna sinn líka í því hvernig þessir einkavæddu bankar fóru fram á húsnæðismarkaðnum. Auðvitað tóku menn ákvarðanir í Íbúðalánasjóði sem má draga mjög í efa að hafi verið skynsamlegar, ég ætla ekki að draga úr því á nokkurn hátt.

Að tala annars vegar um sagnfræði og hins vegar eitthvað sem við getum dregið pólitískan lærdóm af — ég held að það eigi við í báðum tilfellum. Ég held að niðurstaða þeirrar úttektar sem mun þá liggja fyrir á vormánuðum eða í byrjun sumars, vonandi sem fyrst, verði okkur veganesti inn í framtíðina til að læra af því sem miður hefur farið í fortíðinni.