141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[16:35]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta stjórnsk.- og eftirln. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir hans ræðu. Ég átta mig ekki alveg á því hvert hann er að fara er hann telur að þetta séu óskyld mál. Hann orðaði það eitthvað á þá leið að hinir einkavæddu bankar hefðu hrunið í fang ríkisins og því þurfti að losna við þá á einhvern hátt mjög fljótlega. Það er eins og hv. þingmaður hafi ekki lesið þá breytingartillögu sem ég lagði til við málið því breytingartillagan lýtur akkúrat að því er varðar þessar spurningar sem snúa að rannsókn á fyrri einkavæðingunni. Svo sem að það, með leyfi forseta:

„… fari fram rannsókn og gert opinbert, á sundurliðaðan hátt, hvert matsverð hinna sömu eigna var við flutning þeirra frá hinum föllnu bönkum, Landsbanka Íslands hf., Glitni og Kaupþingi banka hf., yfir til nýju bankanna, NBI hf. (síðar Landsbankans hf.), Íslandsbanka hf. og KBI hf. (síðar Arion banka hf.), og skýrt dregið fram hverjir voru ábyrgðaraðilar þess verðmats og hvaða forsendur lágu því til grundvallar.“

Var puttinn bara settur upp í loftið þá nótt 2010 þegar þetta var fært yfir til nýju bankanna, raunverulega í skjóli nætur, og enginn vissi að það var að gerast? Ég fer jafnframt fram á að það verði upplýst hvaða verðmat lá til grundvallar, hvernig kaupendur voru valdir og hvernig kaupin voru fjármögnuð af þeim kaupendum. Ég spyr einnig út í seljandaáhættu sem fylgdi þessari sölu.

Frú forseti. Þetta eru algjörlega samkynja mál. Þess vegna átta ég mig ekki á því hvers vegna ríkisstjórnarflokkarnir þverskallast við að taka þessa tillögu til greina og fylgja henni hér eftir þannig að í sömu nefndinni verði rannsókn á einkavæðingunni fyrri og síðari í samfellu, á sama tíma.