141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[16:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er rétt að ekki voru settar miklar reglur um einkavæðinguna. Menn höfðu þá trú að það eitt að fyrirtæki væru ekki lengur ríkisvædd eða í ríkiseigu mundi losa okkur undan þeirri spillingu sem ég lýsti hér áðan og leyfi mér að kalla spillingu, þ.e. biðstofur bankastjóranna þar sem sumir fengu lán og aðrir ekki. En það sem ég held að hafi búið til þessa miklu froðu eru reglur sem eru enn í gildi og enn leyfilegar, þ.e. að láta peninga fara í hring. Ég hef nefnt hérna fyrirtæki A, B og C og pening sem fer í hring og alls staðar vex eigið fé. Það er ekkert í bókhaldslögum eða lögum um hlutafélög sem bannar þetta. Þetta er enn í gildi. Mér finnst að menn þurfi að vinna að því alþjóðlega að koma í veg fyrir þetta.

Varðandi tillöguna sem ég kom með þá liggur fyrir ákveðin tillaga um að rannsaka einkavæðinguna hina fyrri, ég leyfi mér að kalla hana það, og ég vildi gjarnan að við hana yrði hnýtt viðbót sem hv. nefnd mundi þá fjalla um, ef þetta verður tekið í nefnd og í umræðu. Það er heimilt, frú forseti. Þar yrði bætt við að sú sama nefnd sem rannsakar þetta héldi áfram og rannsakaði það sem gerðist eftir hrun í kringum bankana tvo sem nú eru komnir í eigu slitastjórna og þar af leiðandi í einkaeigu og það ferli yrði allt kannað samhangandi. Ég held að þetta sé ekkert voðalega mikil viðbót við fyrirliggjandi tillögu. Hv. þm. Vigdís Hauksdóttir er með byrjunina á þessari hugmynd en það yrði að gefa lengri frest, kannski hálft ár í viðbót, til að klára dæmið.