141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[17:14]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka fram að ég leggst ekki gegn því að þessi rannsókn fari fram, þvert á móti. Ég hef engar forsendur til að meta hvernig þessi einkavæðing fyrir áratug fór fram eða hvort allar forsendur hennar hafi legið fyrir og verið eins og best yrði á kosið.

Við einkavæðingu ríkisfyrirtækja eru margar aðferðir og það góða í þessari tillögu er að nefndinni er falið að skoða með hvaða hætti hægt er að selja ríkisfyrirtæki. Ég þakka flutningsmönnum fyrir að benda á það. Ég tel sjálfsagt að það sé alltaf skoðað þótt ég teldi reyndar að þingmenn sjálfir, en ekki nefnd úti í bæ, ættu að hafa fulla burði til að leggja fram tillögur í þessum efnum og hafa skoðanir á því hvaða hátt sé best að hafa á við einkavæðingu ríkisfyrirtækja.

Ég ítreka þá skoðun mína að ég tel rétt að kostnaður við gerð rannsóknarskýrslu sem þessarar liggi fyrir áður en hafist er handa.