141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[17:16]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Lúðvík Geirsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt, á síðustu árum höfum við fengið ákveðna reynslu á það í þeirri miklu rannsóknarvinnu sem hefur farið fram á ýmsum þáttum í eftirmálum hrunsins hvaða tími og hvaða kostnaður fylgir því að fara í gegnum þau mál. Mér finnst hins vegar algjörlega absúrd að gera þann kostnaðarþátt, þó að hann hlaupi á tugum milljóna eða jafnvel hundrað milljónum, að stóra málinu í þessari umræðu. Stóra málið hlýtur að vera að við fáum upplýsingar, sannleikann og það sem máli skiptir upp á borðið þannig að við getum gengið sátt frá borði.

Ég hjó eftir því að hv. þingmaður sagðist ekki hafa neinar forsendur til að meta hvernig mál lægju varðandi þær spurningar sem ég beindi til hennar. Það er svo sem eðlilegt. Við höfum ekki þau gögn og þær upplýsingar í höndunum. Ég vísa hins vegar til þess að það hefur verið almenn og víðtæk umræða á umliðnum árum um ýmsa þætti sem snúa að þessu. Þar hafa komið fram margvíslegar ásakanir um það og bent hefur verið á brotalamir í þeim efnum. Menn hafa ekki skipst í einhverja flokka á þingi eða annars staðar sem ekki hafa viljað hlusta á þær athugasemdir og talið að þar væru ýmsir hlutir sem þyrftu frekari skoðunar við.

Ég lít svo á að við hljótum að vera sammála um að í ljósi þeirra víðtæku athugasemda og ábendinga og umræðu sem hefur verið um málið sé brýn þörf á því að klára að fara yfir þetta mál og draga fram í dagsljósið allt sem að því snýr þannig að við getum haft það í eitt skipti fyrir öll uppi á borðum. Síðan verður að koma í ljós hvaða lærdóm við drögum af því. Það getur einmitt skipt miklu og slík niðurstaða getur gefið okkur ýmislegt veganesti inn í framtíðina.