141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[17:18]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, það er ekki eins og þessi mál hafi aldrei verið rannsökuð. Ríkisendurskoðandi hefur meira að segja rannsakað þau. Þau hafa verið til umræðu nánast látlaust í tíu ár. Menn geta ekki elt endalaust ólar við það þótt einhverjir álitsgjafar, eins og ég segi, hafi haft uppi stóryrði um þessa einkavæðingu, menn og málefni henni tengd.

Ég ítreka líka það sem ég sagði áðan, það er fínt að þessi rannsókn fari fram. Ég skil ekki af hverju menn vilja ekki flýta henni og leggja hana fyrir á þessu kjörtímabili frekar en því næsta. Ég tel mikilvægt að kostnaðurinn liggi fyrir svo þjóðin fái að fylgjast með því í hvað peningum skattgreiðenda er varið og hvar áherslur ríkisstjórnarinnar liggja þessa dagana.