141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[17:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Lúðvík Geirsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var nokkuð áhugaverð ræða hjá þingflokksformanni Framsóknarflokksins, Gunnari Braga Sveinssyni. Hann talar um fortíðarhyggju og að menn dreifi athyglinni en lengsti hluti ræðunnar fór þó í að tala um eitthvað sem gerðist fyrir nokkrum árum, kannski til að dreifa athyglinni og huga að fortíðinni.

Það deilir enginn um að menn hafi haft skoðanir á því hvort bankar ættu að vera í ríkiseigu eða ekki og hvort selja ætti bankana. Við erum ekkert að takast á um það. Málið snýst um hvernig staðið var að einkavæðingunni, að sölu bankanna. Hv. þingmaður segir að margbúið sé að rannsaka málið og að verið sé að gera það núna til að gefa ríkisstjórninni eitthvert skjól út af einhverjum vandamálum, sem ég veit ekki hver eiga að vera, og til að koma einhverju pólitísku höggi á andstæðinga. Ég veit ekki hvort hann átti þá við Framsóknarflokkinn sérstaklega og hvort þetta tengdist þá einkavæðingu Búnaðarbankans. Það hlýtur þá bara að koma í ljós ef svo er. Ég hef aldrei litið þannig á málið. Ég hef auðvitað talið eðlilegt að þær spurningar, sú gagnrýni og sú umræða sem hefur farið fram um málið verði leidd til lykta, að þessu máli verði lokið, það verði klárað til að hafa söguna skýra á einum stað, bæði fyrir okkur sem störfum hér nú og erum með þessi verkefni í fanginu en ekki síður til þess að draga lærdóm af því í framtíðinni. Það er það sem skiptir máli.

Þetta er mál sem ég held að þingmenn hér í salnum, hvaðan úr flokki sem þeir koma, eigi að geta verið sammála um, ekki síst þingmenn Framsóknarflokksins sem hafa verið manna duglegastir við að óska eftir rannsóknum á hinu og þessu. (Gripið fram í.) Ég sé ekki hvað ætti að trufla þá í því að taka þátt í þessu verkefni með (Forseti hringir.) okkur hinum.