141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[17:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef hv. þingmaður er eitthvað viðkvæmur fyrir því að við höfum krafist þess að sparisjóðirnir og lífeyrissjóðirnir verði rannsakaðir er það bara hans mál, en vissulega teljum við að full ástæða sé til að rannsaka ýmislegt á þeim bænum. En það er nefnilega málið, við verðum að velja okkur vígvöll, við verðum að velja hvað við ætlum að rannsaka. Ætlum við að eyða fjármunum í það enn og aftur að rannsaka einkavæðinguna sem varð fyrir rúmum áratug? Til hvers? Hvaða spurningum er verið að svara og hvaða forvitni er verið að svala? Ég veit ekki betur en að það séu aðallega þingmenn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna sem hafa haldið þessu máli gangandi. Til hvers? Væntanlega í pólitískum tilgangi og engum öðrum. Mig langar að biðja hv. þingmann um að nefna þá fræðimenn og blaðamenn sem verið hafa sérstaklega áhugasamir um málið. Það má eflaust finna blaðamenn og fræðimenn sem eru áhugasamir um að rannsaka lífeyrissjóðina og sparisjóðina og Icesave og allt það, það má eflaust má finna slíka menn. Eigum við þá að stökkva til og gera það? Ef það er stefnan sem taka á held ég að það sé engin spurning.

Málið er að ef við ætlum að eyða fjármunum í rannsóknir til að læra af mistökunum eigum við að sjálfsögðu að kanna það sem stendur okkur næst í dag og er nýjast fyrir okkur. Það er nýja einkavæðingin, það er Icesave, það eru málefni Sparisjóðs Keflavíkur og ýmislegt annað sem þarf svo sannarlega að fara ofan í kjölinn á. Er ekki rétt að gera það frekar en að horfa tíu ár aftur í tímann þegar búið er að rannsaka ákveðna hluti?

Ef menn komast að því í fyllingu tímans að eitthvað annað hafi verið að þar þá kemur það í ljós, að sjálfsögðu. En ég sé ekki að hægt sé að færa fyrir því rök að fara þessa leið núna nema þá að menn taki dæmið frá enda alveg fram að nýjustu einkavæðingunni því að það má tengja það saman miðað við þær fullyrðingar sem þingmenn stjórnarflokkanna hafa sagt og gert.