141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[17:58]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kann að vera að einhvers staðar hafi fé verið notað í skrýtna hluti, en ætli það megi nú ekki fara í gegnum býsna mörg ár og býsna mörg atriði og ýmislegt sem tengt er íslensku efnahagslífi og þjóðlífi ef tala á um skrýtna hluti?

Eigum við að velta fyrir okkur hvernig stendur á því að þenslan í íslenska stjórnkerfinu, kostnaður ríkisins, hefur aldrei aukist jafnhratt og árið 2007 og eftir það þegar Samfylkingin komst til valda? Voru einhverjir skrýtnir hlutir þar á ferð? Í hvað fóru þeir peningar? Við hljótum að velta því fyrir okkur.

Mig langar líka að segja að ég hygg að skrýtnustu hlutirnir á síðastliðnum árum hafi verið í lífeyrissjóðum landsmanna, hvernig haldið var á hlutum þar, hvernig menn þar ávöxtuðu fé sitt og hvernig þeir töpuðu svo því fé. Ég held að við þurfum að skoða lífeyrissjóðina vandlega. Við þurfum líka að fara í gegnum sparisjóðakerfið og hvernig menn stóðu þar að málum. Þar held ég að séu skrýtnustu hlutirnir á síðustu árum.