141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

kosningar til Alþingis og kosningar til sveitarstjórna.

7. mál
[18:17]
Horfa

Frsm. stjórnsk.- og eftirln. (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 300 um frumvarp til laga um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis. Það er 7. mál þessa þings. Nefndarálitið er frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og undir það rita auk þeirrar sem hér stendur hv. þingmenn Valgerður Bjarnadóttir, Róbert Marshall, Lúðvík Geirsson, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Vigdís Hauksdóttir og Jón Kr. Arnarson.

Með þessu frumvarpi, herra forseti, er gerð tillaga um að leiðrétta lýðræðishalla sem er í kjörstjórnum, þ.e. að í yfirkjörstjórnum og landskjörstjórn skuli framboði sem á fulltrúa á Alþingi en fær ekki kjörinn fulltrúa í þessar kjörstjórnir heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa til setu í þeim og annan til vara.

Þetta frumvarp er endurflutt. Á síðasta þingi fjallaði stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd ítarlega um málið og gerði tvær breytingartillögur sem flutningsmenn gerðu að sínum við framlagningu og endurflutning málsins.

Niðurstaða nefndarinnar er einföld, hún leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.