141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

málefni innflytjenda.

64. mál
[18:20]
Horfa

Frsm. velfn. (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um málefni innflytjenda sem velferðarnefnd sameinast um.

Nefndin hefur fjallað um þetta mál á þessu þingi og því síðasta og við höfum fengið til okkar gesti á þessu þingi auk þess að fara yfir umsagnir frá þeim sem sendu þær inn á síðasta þingi.

Með frumvarpinu er lögð til heildstæð löggjöf um stjórnsýsluleg málefni innflytjenda. Það er um að gera að leggja áherslu á að hér er fyrst og fremst verið að tala um stjórnsýslulegt málefni, í raun og veru ekki um útvíkkun á starfsemi meðal innflytjenda heldur fyrst og fremst stjórnsýsluna. Það er verið að festa í sessi þá umgjörð sem málefnin hafa verið í undanfarin ár og það snýr að stjórnsýslunni. Það eru ekki neinar efnisreglur um réttindi innflytjenda. Nefndin telur þó vert að taka fram að í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að stefnt sé að innleiðingu tilskipunar nr. 2000/43/EB, um framkvæmd meginreglunnar um jafna meðferð manna án tillits til kynþáttar eða þjóðernis, samhliða innleiðingu tilskipunar 2000/78/EB, um almennar reglur um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífi. Nefndin telur mikilvægt að næstu skref í innleiðingarferlinu verði stigin fljótt eftir að frumvarp það sem hér er til umfjöllunar verður að lögum svo tryggja megi innflytjendum þau réttindi sem felast í fyrrgreindum tilskipunum. Um þetta varð talsverð umræða í nefndinni og við leggjum á þetta ríka áherslu.

Frumvarpið skiptist í þrjá efnisþætti. Í fyrsta efnisþætti eru markmiðsákvæði, í öðrum efnisþætti þar sem meginefni frumvarpsins er að finna er fjallað um stjórnsýslu í málefnum innflytjenda og í þriðja efnisþætti eru reglugerðarheimild og gildistökuákvæði. Loks eru nokkur ákvæði til bráðabirgða og nefndin telur uppsetningu frumvarpsins skýra og greinargóða.

Hér er síðan fjallað um hlutverk og stöðu Fjölmenningarseturs. Nefndin fjallaði um hlutverk og stöðu setursins og reynslu af starfsemi þess síðustu árin. Önnur tveggja stoða í málefnum innflytjenda er Fjölmenningarsetur, en starfsemi setursins hefur hingað til verið byggð á þingsályktun Alþingis frá árinu 2000 um stofnun miðstöðvar nýbúa á Vestfjörðum. Með frumvarpinu er lagt til að rekstri stofnunarinnar verði veitt lagastoð og nánar kveðið á um starfsemi hennar í þessum lögum.

Nefndin fjallaði um stöðu og hlutverk Fjölmenningarseturs eins og því er lýst í frumvarpinu og hvernig starfsemi þess hefur verið háttað. Kom fram að Fjölmenningarsetur er fyrst og fremst upplýsingaveita þar sem innflytjendur geta nálgast upplýsingar um réttindi sín og skyldur. Ekki síður hefur Fjölmenningarsetur það hlutverk að veita sveitarfélögum og stofnunum ríkisins upplýsingar um réttindi og skyldur sínar gagnvart innflytjendum. Fjölmenningarsetur veitir innflytjendum upplýsingar með þríþættum hætti, með upplýsingagjöf í gegnum vef setursins, með upplýsingagjöf og ráðgjöf í gegnum upplýsingasíma setursins og með útgáfu á sértækara upplýsingaefni, t.d. í formi bæklinga.

Hlutverk Fjölmenningarseturs hefur ekki verið að taka á móti fólki utan af götunni og í frumvarpinu er ekki gert ráð fyrir því að breyting verði þar á. Upplýsingamiðlun setursins verður áfram fyrst og fremst á netinu og í gegnum síma. Þá telur nefndin að eitt mikilvægasta hlutverk Fjölmenningarseturs sé að taka saman þær upplýsingar sem innflytjendur, sveitarfélög og stofnanir ríkisins þurfa á að halda og leggur til breytingu á c-lið 1. mgr. 3. gr. frumvarpsins til að skerpa á þessu hlutverki.

Nefndin fjallaði einnig talsvert um stærð Fjölmenningarsetursins en það hafa komið fram athugasemdir um stærð stofnunarinnar sem er aðeins 3,25 stöðugildi. Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði starfsemi sem er lítil í sniðum og er það í raun ekki í samræmi við áherslur undanfarinna ára þar sem frekar hefur verið reynt að sameina og stækka ríkisstofnanir. Nefndin leggur áherslu á að reynsla af starfsemi Fjölmenningarseturs er mjög góð og að hér er aðeins verið að stíga fyrsta skrefið í aukinni þjónustu við innflytjendur í stjórnsýslunni. Rekstrarkostnaður setursins er lítill, yfirbyggingunni er haldið í algjöru lágmarki og því lítill kostnaðarauki fólginn í því að lögfesta starfsemi setursins.

Nefndin fjallaði nokkuð um staðsetningu Fjölmenningarseturs. Frá því að setrinu var komið á laggirnar hefur það verið starfrækt á Ísafirði og má að hluta til rekja þörfina fyrir setrið þegar það var stofnað til þess að á Vestfjörðum voru þá margir innflytjendur og hátt hlutfall íbúa var innflytjendur. Á það hefur hins vegar verið bent að mesti fjöldi innflytjenda er á höfuðborgarsvæðinu og því skjóti skökku við að starfsemi setursins, sem hefur það hlutverk að sinna ýmissi upplýsinga- og leiðbeiningarþjónustu við innflytjendur, skuli vera á Ísafirði. Af hálfu Reykjavíkurborgar kom fram sú afstaða að best væri að starfsemin væri á höfuðborgarsvæðinu og að af hálfu borgarinnar væri nú þegar starfrækt ýmiss konar upplýsingaþjónusta fyrir innflytjendur, m.a. símaþjónusta á pólsku, sem ætti hugsanlega betur heima á vegum Fjölmenningarseturs en að innflytjendur sneru sér hins vegar síður til setursins vegna staðsetningar þess. Við þessa umfjöllun verður þó að hafa í huga að starfsemi setursins er þess eðlis að henni er að meginstefnu til hægt að sinna hvaðan sem er af landinu.

Helstu verkefni eru talin upp í 3. gr. frumvarpsins og vegur þar einna þyngst að vera stjórnvöldum, stofnunum, fyrirtækjum og öðrum til ráðgjafar um málefni innflytjenda og hafa til reiðu og miðla upplýsingaefni. Að stærstum hluta fer þessi starfsemi fram á netinu í gegnum heimasíðu setursins eða í gegnum síma. Eðli málsins samkvæmt skiptir þá auðvitað ekki máli hvar á landinu netsíða er uppfærð eða svarað í síma. Enn mikilvægara er þó að sveitarfélög og stofnanir ríkisins eiga gott samstarf við Fjölmenningarsetur um miðlun upplýsinga til innflytjenda eins og fram kemur aftar í nefndarálitinu.

Fjölmenningarsetur hefur fest sig í sessi, þar er til mikil reynsla og mikil þekking og ríkisstofnun af þessu tagi á einmitt í raun og veru mjög vel heima á landsbyggðinni. Við eigum að vera stolt af því að setja hana þar niður.

Í þessu frumvarpi er einnig talað um innflytjendaráð, í 4. gr. frumvarpsins er kveðið á um hvernig innflytjendaráð skuli skipað og í 5. gr. kemur fram hlutverkið sem er meðal annars að vera ráðherra til ráðgjafar við faglega stefnumótun í málefnum innflytjenda og hafa eftirlit með framkvæmd hennar. Þá á innflytjendaráð að stuðla að samhæfingu og samráði milli ráðuneyta, sveitarfélaga og innan stjórnsýslunnar. Nefndin leggur áherslu á síðastgreint hlutverk innflytjendaráðs og telur það afar mikilvægt. Nauðsynlegt er að traust samfella sé í þjónustu og stuðningi ríkis og sveitarfélaga við innflytjendur. Það tiltökum við sérstaklega í sérstökum kafla.

Eins og áður sagði er helsta hlutverk Fjölmenningarseturs að vera upplýsingaveita fyrir alla þá sem þurfa á að halda upplýsingum um málefni innflytjenda. Fjölmenningarsetri er hins vegar ekki ætlað það hlutverk að taka beinlínis á móti innflytjendum sem leita til setursins og veita þeim upplýsingar í formi viðtals eða á annan álíka máta. Starfsfólkið leiðbeinir innflytjendum um réttindi sín og skyldur og fylgir oft eftir málum þeirra í kerfinu sé þess þörf. Nefndin telur þó vert að árétta að á öllum stofnunum ríkisins og sveitarfélaga hvílir leiðbeiningarskylda við þá sem þangað leita. Nauðsynlegt er því að gott samstarf verði milli setursins og stofnana ríkis og sveitarfélaga og að nauðsynlegu upplýsingaefni sem tekið er saman af Fjölmenningarsetri verði dreift til þeirra aðila sem vinna að málefnum innflytjenda beint og jafnframt að þeir aðilar eigi greiðan aðgang að setrinu til frekari upplýsingagjafar.

Fyrir nefndinni kom fram að kanna mætti þann möguleika að ríki og sveitarfélög gerðu með sér þjónustusamning þannig að sveitarfélög mundu starfrækja sérstakt upplýsingasetur eða þjónustumiðstöðvar fyrir innflytjendur í stærri sveitarfélögum þar sem þörf er á slíku. Nefndin telur vert að þetta verði kannað og hvort að með því megi bæta upplýsingagjöf til innflytjenda enn frekar og stuðla þannig að því að einfalda aðlögun innflytjenda að íslensku samfélagi.

Nefndin leggur til eina breytingu á frumvarpinu, þ.e. að c-liður 1. mgr. 3. gr. umorðist þannig að meiri áhersla verði lögð á það hlutverk Fjölmenningarseturs að taka saman upplýsingar um málefni innflytjenda og miðla þeim til þeirra sem á þurfa að halda. Fjölmenningarsetri er ætlað að vera í fararbroddi í íslenskri stjórnsýslu varðandi þekkingu á málefnum innflytjenda og því er eðlilegt að þetta hlutverk komi skýrt fram í lögunum.

Að framangreindum sjónarmiðum virtum telur nefndin að frumvarpið sé mikilvægt skref í málefnum innflytjenda og leggur til að það verði samþykkt með þeirri breytingu að c-liður 1. mgr. 3. gr. orðist svo:

taka saman og miðla upplýsingum um réttindi og skyldur innflytjenda.

Þuríður Backman, Árni Þór Sigurðsson og Kristján L. Möller voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Birgitta Jónsdóttir, áheyrnarfulltrúi í nefndinni, er samþykk áliti þessu. Undir álitið skrifa sú er hér stendur, Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, Einar K. Guðfinnsson, Unnur Brá Konráðsdóttir, Eygló Harðardóttir og Guðmundur Steingrímsson.