141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

fullgilding viðbótarbókunar við samning á sviði refsiréttar um spillingu.

296. mál
[18:51]
Horfa

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta mörg orð. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að flytja þessa tillögu til þingsályktunar um fullgildingu viðbótarbókunar við samning á sviði refsiréttar um spillingu. Þar er að hluta til svarað fyrirspurn sem fyrir liggur til utanríkisráðherra um undirritun og fullgildingu Íslands á samningi Evrópuráðsins og hvenær fyrirhugað er að henni verði lokið af hálfu íslenskra stjórnvalda. Hér er þá komin fram þingsályktunartillaga um fullgildingu á lið nr. 6, samþykkt Evrópuráðsins gegn spillingu.

Hæstv. forseti. Á hverju ári birtir eftirlitsnefnd Evrópuráðsins yfirlit yfir þá samninga sem standa út af, þ.e. sem þjóðir Evrópuráðsins hafa ekki innleitt eða fullgilt. Við Íslendingar fengum ábendingu um að það væru sjö, ýmist bókanir, sáttmálar eða samþykktir, sem við hefðum ekki innleitt. Ég veit að verið er að vinna að mörgum þeirra. Því er fagnaðarefni að þessi þingsályktunartillaga skuli vera komin fram og ég hvet hæstv. ráðherra til að halda dyggilega áfram við að innleiða aðra þætti.