141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

fullgilding viðbótarbókunar við samning á sviði refsiréttar um spillingu.

296. mál
[18:53]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mikið rétt, ég slæ tvær flugur í einu höggi. Bæði svara ég að minnsta kosti parti af fyrirspurn hv. þingmanns og sömuleiðis legg það til við þingið að þessi viðbótarbókun verði staðfest. Það var ekki algjörlega sjálfgefið. Það er mín skoðun að á síðasta þingvetri fyrir kosningar eigi að freista þess af hálfu framkvæmdarvaldsins að leggja fram sem fæst þingmál til þess að greiða fyrir þingstörfum svo menn geti komist í kosningar. Ég taldi hins vegar nauðsynlegt að leggja þetta mál fram þó að í sjálfu sér sé lítið og þótt við sem búum hér teljum ólíklegt að það sé reynt að spilla dómum með því að múta þeim sem þá fella. Eigi að síður, eins og hv. þingmaður gat um, hafði verið gerð ábending. Ég tók hana reyndar sem aðfinnslu við okkar stjórnarhætti og taldi þess vegna mjög brýnt að við lykjum þessum samningi og reyndar fullgildingu annarra samninga. Þannig væri algjörlega í gadda slegið að íslensk stjórnvöld gerðu það sem væri í þeirra færum til að tryggja að umhverfið, a.m.k. hér á Íslandi, væri þess eðlis að engar freistingar væru til að reyna að grípa til meðala af þessu tagi til að ráða úrslitum mála sem kynnu fyrir dóm að koma.

Það er mér sönn ánægja að segja það við hv. þingmann að ég tel að þetta sé til marks um að eftirlit af hálfu Evrópuráðsins og ýmissa nefnda þess sé ekki út í bláinn, það skilar árangri. Það er akkúrat svona alþjóðleg samvinna sem gerir það að verkum að stundum færir maður fótinn eilítið lengra fram í skrefinu en ella hefði gerst.