141. löggjafarþing — 30. fundur,  6. nóv. 2012.

fullgilding viðbótarbókunar við samning á sviði refsiréttar um spillingu.

296. mál
[18:55]
Horfa

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel að hæstv. ráðherra sé óhætt að koma með fleiri slík mál inn til þingsins og að þau muni ekki tefja störf þess. Ég tel að við hljótum öll að vera sammála um að bæta lagaumhverfið og stöðu okkar, bæði innan lands og gagnvart alþjóðasamfélaginu. Við töldum líka að hér væri lítil spilling og við þyrftum lítið að hafa áhyggjur af samfélaginu eins og það var en í hruninu kom ýmislegt í ljós. Það er ekki síður í fámenni sem ýmislegt getur gerst sem gerist kannski ekki eins í fjölmennari löndum þar sem kunningsskapur og vinarþel er miklu nær en við gerum okkur oft grein fyrir. Við höfum að minnsta kosti lært að það er mikilvægt að hafa reglugerðina, umgjörðina, góða og að farið sé eftir leikreglum. Ég hvet hæstv. ráðherra til að hafa ekki áhyggjur af því að koma með fleiri góð mál. Ég tel að þau muni fá farsæla afgreiðslu hér í þinginu.