141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Málefni hjúkrunarheimilisins Eirar hafa verið mikið til umfjöllunar síðustu daga. Í því sambandi ber að halda ákveðnum staðreyndum til haga. Í fyrsta lagi er rétt að undirstrika að rekstur Eirar í dag er tryggur og vel er að honum staðið. Í öðru lagi er sá vandi sem um hefur verið fjallað að undanförnu úr fortíðinni kominn og á ábyrgð þeirra sem þá ráku heimilið. Á þessum málum hefur nú verið tekið. Gripið hefur verið til umfangsmikilla ráðstafana til að bregðast við vandanum sem er mikill og getur haft slæmar afleiðingar í för með sér.

Hjúkrunarheimilið hefur að hluta verið fjármagnað með opinberum fjármunum í gegnum Framkvæmdasjóð aldraðra með daggjöldum og með lánum frá Íbúðalánasjóði sem óvíst er að innheimtist að fullu ef allt fer á versta veg. Á fjárlögum yfirstandandi árs er gert ráð fyrir útgjöldum til Eirar upp á tæpa 1,5 milljarða kr.

Fjárlaganefnd Alþingis ber skylda til að hafa eftirlit með fjármálum ríkisins og hefur því boðað framkvæmdastjóra Eirar til fundar um málefni heimilisins, fjárhagsstöðu þess og um hættuna á því að ríkissjóður eða stofnanir ríkisins glati fjármunum vegna húsrekstrar heimilisins. Það er þó verra ef svo fer að fjöldi einstaklinga muni tapa háum upphæðum á viðskiptum sínum við Eir frá fyrri tíð. Þeir einstaklingar hljóta að eiga samúð okkar allra. Þetta fólk þarf að fá skýr skilaboð um það frá stjórnvöldum og Alþingi þvert á flokka að þeirra mál verði tryggð með öllum ráðum, það geti áfram búið í þeim íbúðum sem það greiddi fyrir í góðri trú og hélt vera sínar.

Þau skilaboð þurfa sömuleiðis að vera skýr frá okkur úr þessum sal að Hjúkrunarheimilið Eir muni áfram verða rekið og það muni hér eftir sem hingað til bjóða þá þjónustu sem veitt er í dag. Stjórnvöld geta hins vegar ekki tekið ábyrgð á þeim sem svo illa fóru með rekstur heimilisins sem raun virðist vera á eða fádæma framkomu þeirra gagnvart eldra fólki. Þeir munu sjálfir þurfa að standa skil á þeim gerðum sínum.