141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:07]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U):

Virðulegi forseti. Í dag greiðum við atkvæði um hvort rannsaka eigi einkavæðingu bankanna bæði fyrir og eftir hrun. Margt er á huldu um seinni einkavæðinguna sem verður að upplýsa. Við vitum til dæmis ekki hverjir kröfuhafar föllnu bankanna eru og þar með ekki hverjir eiga Arion banka og Íslandsbanka.

Virðulegi forseti. Þingið á að neyða bankana til að upplýsa um eignarhaldið með lagasetningu sem bannar falið eignarhald fjármálafyrirtækja. Almenningur á rétt á að vita hvort seinni einkavæðing bankanna fól í sér hrægammavæðingu bankakerfisins. Við vitum að kröfur í föllnu bankanna voru keyptar af hrægammasjóðum á hrakvirði og við vitum líka að hrægammasjóðir voru einmitt stofnaðir til að firra eigendur sína allri samfélagslegri ábyrgð. Hrægammasjóðir munu því aldrei gefa eftir kröfuna um að fá eignir sínar, þ.e. kröfurnar, að fullu endurgreiddar þó svo þeir hafi aðeins greitt um 4–5% af andvirði þeirra.

Hrægammasjóðir eru nú langt komnir með að narta í alla parta hagkerfisins. Þeir hafa eignast fyrirtækin með því að lána þeim með veði í sjóðsstreymi þeirra, þeir hafa keypt upp fasteignir og kröfur af gjaldþrota fólki og fyrirtækjum sem mörg hver eru komin á götuna. Þeir eru tilbúnir að lána ríkinu í von um að verða ráðandi afl í efnahagslífinu.

Virðulegi forseti. Við verðum að koma í veg fyrir gríðarlegan landflótta á næstu árum. Það gerum við með því að sýna hugrekki og láta ríkið yfirtaka eignir hrægammasjóða á hrakvirði. Allir munu skilja nauðsyn þess.