141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að vekja athygli þingheims á frétt Morgunblaðsins í dag um að alvarleg vanskil séu enn að aukast, að þeim einstaklingum sem eru í alvarlegum vanskilum sé að fjölga. Ég held að við hljótum að þurfa að taka það alvarlega að þessi þróun skuli halda áfram þegar margir þingmenn höfðu vonast til þess að ástandið væri farið að skána eitthvað og þessi þróun færi að taka enda.

Ég vil í því sambandi benda á að í nefndum Alþingis eru nokkur þingmál, þar á meðal frá Framsóknarflokknum, sem lúta að stöðu heimilanna. Ég tel mikilvægt að koma því á framfæri við þingmenn að við sameinumst um að reyna að fá þau mál afgreidd úr nefnd fyrir jól þannig að eitthvað megi gera til að reyna að bæta þá stöðu sem komin er upp.

Þar er um að ræða þingmál sem lúta meðal annars að skuldum heimilanna, þ.e. að skapa svigrúm fyrir þá sem geta greitt af lánum sínum — það eru reyndar ekki allir sem geta það — til að borga höfuðstólinn hraðar niður en gert er núna með því að nota skattkerfið. Hins vegar er það mál sem við höfum nokkrum sinnum flutt hér í þinginu sem varðar verðtryggingu, þ.e. að reyna að koma böndum á hana. Inni í því þingmáli eru ýmis önnur mál, ýmsar aðrar aðgerðir sem hvatt er til að gripið verði til.

Hugmyndafræðin í þessu öllu er einmitt sú, sem ég er að reyna að koma á framfæri, að reynt verði að koma til móts við heimilin með einhverjum hætti. Okkur finnst ekki nóg að gert. Fyrir utan þessi þingmál eru fleiri þingmál er lúta að sama máli eða með svipuðum hætti að einhverju leyti. Ég vil því hvetja formenn nefnda til að afgreiða þessi mál eins fljótt og unnt er þannig að hægt sé að grípa til aðgerða sem byggja á þessum þingmálum núna fyrir jól.