141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:12]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Það er því miður ekkert nýtt að sjúklingar þurfi að dveljast á göngum Landspítalans. En því miður virðist það ekki lengur vera undantekning heldur dvelja fleiri á göngunum og þeir dvelja þar lengur en áður hefur verið. Þeir dvelja þar á öllum árstímum, ekki aðeins þegar um sumarleyfi er að ræða og lokanir deilda þess vegna eða á sérstökum álagstíma.

Þetta er ófremdarástand, ekki aðeins fyrir sjúklingana sjálfa heldur einnig fyrir aðstandendur þeirra og fyrir starfsmenn sjúkrahússins. Ég treysti því að ekki þurfi að koma til þess að Slökkvilið og Vinnueftirlit þurfi að loka deildum Landspítalans heldur muni stjórnendur spítalans grípa til þess núna að opna deildir sem eru lokaðar og rýma gangana sjálfir.

En það er ljós í myrkri og við fengum líka gleðifregnir í dag af Landspítalanum. Við vitum að í fjáraukanum hefur verið bætt við 150 millj. kr. til tækjakaupa á spítalann og í fjárlögum, sem við fáum til 2. umr. innan skamms, er upplýst að gerð verði tillaga um 600 millj. kr. til viðbótar í tækjakaup á næsta ári sem þýðir að Landspítalinn mun hafa um 900 millj. kr. í tækjakaup á næsta ári.

Það eru líka góðar fréttir fyrir Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri sem fær 50 millj. kr. í tækjakaup í fjáraukanum og til viðbótar 70 millj. kr. á næsta ári. Ég hlýt að gleðjast yfir þessu en bendi á að það eina sem vantar nú upp á að við stígum stóru skrefin í þessu er að fara að ljúka formlega undirbúningi í þinginu að nýbyggingu Landspítalans. Ég minni á að inni í áætlun um fjármögnun hans eru 7 milljarðar til tækjakaupa. Það er bara einfaldlega þannig að húsrými á gamla spítalanum stendur því fyrir þrifum.

Við þurfum nýjan spítala þrátt fyrir þessar góðu fréttir.