141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að sjá og heyra áherslur manna undir þessum dagskrárlið. Eins og oft áður er ýmislegt sem berst til tals. Ég vil byrja á að taka undir það með hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni að við verðum að taka okkur tak í að forgangsraða þeim málum sem snerta beint hag fjölskyldnanna og fyrirtækjanna í landinu. Það er algerlega óásættanlegt að við séum komin þetta langt á þessu þingi og enn séu fjölmörg mál sem lögð hafa verið fram óafgreidd. Það sem meira er, við erum enn í þeirri stöðu að eiga von á frumvörpum frá ríkisstjórninni sem boðuð hafa verið en bólar ekki á.

Ég vil nefna boðuð frumvörp sem tengjast tekjuhlið fjárlaga. Við höfum verið að ræða, í þingnefnd sem endurskoðar þingsköp, mikilvægi þess að tekjuhlið fjárlaga liggi fyrir strax í upphafi þings þegar fjárlagafrumvarpið er lagt fram þannig að hægt sé að vinna þau samhliða fjárlagavinnunni. Nú er komið vel inn í nóvembermánuð og hvergi bólar á þessum frumvörpum, t.d. boðuðu frumvarpi um vörugjaldahækkun á bílaleigur sem setur heila atvinnugrein í uppnám. Menn eru að reyna að gera áætlanir fyrir næsta rekstrarár og jafnvel þarnæsta rekstrarár eins og ferðaþjónustan þarf að gera og það eina sem vitað er er að þessi krumla, skattakrumla ríkisins, hangir yfir greininni. Hvergi bólar á útfærslunni, hvergi sér þess stað hvernig útfæra á þessar hugmyndir og hvort þær séu yfir höfuð þannig að hægt sé að útfæra þær.

Ég hvet okkur öll til að spýta í lófana og fara að gera hluti sem virkilega skipta máli.