141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrst langar mig til að taka undir það sem kom fram í máli hv. þm. Ragnheiðar Ríkharðsdóttur hér í gær þegar hún vakti máls á því að við ættum að skoða alvarlega hvort við þyrftum ekki að endurskoða löggjöf um skóla án aðgreiningar. Ég held að þetta sé mjög veigamikið mál þar sem hlutirnir eru ýmist svartir eða hvítir þannig að ég vil taka undir þessa tillögu hennar.

Síðan að allt öðru.

Virðulegi forseti. Ég veit vel að ríkisendurskoðandi er sjálfstæður og enginn segir honum fyrir verkum. Ég ætla hins vegar að leyfa mér að hafa skoðun á því sem hann gerir og þeirri niðurstöðu hans að Ríkisendurskoðun hafi ekki endurskoðunarumboð vegna uppákomunnar á Eir, ríkisendurskoðun hafi einungis slíkt umboð vegna hjúkrunarhlutans á Eir en ekki vegna öryggisíbúðanna. Samt sem áður, virðulegi forseti, skrifaði Ríkisendurskoðun upp á að hjúkrunarheimilið yrði veðsett til að byggja öryggisíbúðirnar. Í ársskýrslu Eirar kemur fram 140 millj. kr. skuld við hjúkrunarheimilið vegna öryggisíbúðanna. Allur þessi rekstur er á einni og sömu kennitölunni og mér er það gjörsamlega óskiljanlegt að ríkisendurskoðandi telji sig ekki hafa umboð til að fara ofan í hvað þarna er að gerast.