141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Við ræddum hér aðeins í gær um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum og áhyggjur mínar af því að Sjálfstæðisflokkurinn væri að færast mjög langt til hægri í skattapólitík og niðurskurði í velferðarkerfinu. Það kallaði á ekki færri en þrjá þingmenn Sjálfstæðisflokksins sem komu upp í ræðustólinn og afneituðu því að vera svo tengdir Repúblikanaflokknum sem áhyggjur mínar voru eða hafa hans skattapólitík eða velferðarpólitík.

Það er ástæða til þess að fagna því að undirstrikað sé að Sjálfstæðisflokkurinn á Íslandi standi ekki fyrir það að leggja fyrst og fremst áherslu á að lækka skatta á eignafólk og hátekjufólk. Formaður Sjálfstæðisflokksins tiltók í svari sínu aðeins einn skatt sem hann lagði áherslu á, auðlegðarskattinn, sem væri mikil fátæktargildra. Þá hlýtur maður að spyrja Sjálfstæðisflokkinn hvort það lýsi forgangsröðun hans í skattamálum á næsta kjörtímabili að afnema auðlegðarskattinn. (Gripið fram í.)

Í öðru lagi var líka fagnaðarefni að heyra hv. þm. Ásbjörn Óttarsson lýsa því yfir að Sjálfstæðisflokkurinn styddi ekki frekari niðurskurð í velferðarkerfinu, hann stæði ekki að frekari niðurskurði í velferðarkerfinu. Ég held að ég hafi heyrt rétt að forusta Sjálfstæðisflokksins hafi haft yfirlýsingar í þveröfuga átt hér á sumrinu. Það væri fagnaðarefni að fá skýrar línur í þessu af hálfu Sjálfstæðisflokksins. En ef Sjálfstæðisflokkurinn hefur horfið frá því að leggja áherslur á skattalækkanir hátekjufólks og eignafólks og horfið frá því að kalla eftir frekari niðurskurði í velferðarkerfinu þá held ég að umræðurnar í þinginu hafi skilað því að við færumst nær hvert öðru og skapað betri grundvöll fyrir víðtækari samvinnu um mál. Ég vona að það sé ekki rétt skilið af ræðu formanns Sjálfstæðisflokksins hér í gær að því sé einmitt þveröfugt farið, að eignafólkið sé í fullum forgangi hjá Sjálfstæðisflokknum, forgangsverkefni hans númer eitt, og að það sem fyrst komi í hugann sé nauðsyn þess að (Forseti hringir.) afnema það sem hann kallaði fátæktargildru, þ.e. auðlegðarskattinn, sem aðeins þeir greiða sem eru í mjög góðum efnum í íslensku samfélagi. (Gripið fram í.)