141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:23]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Um langt árabil hefur hlutfall af þjóðarframleiðslu Íslendinga til þróunarmála verið skammarlega lágt þó að uppi séu metnaðarfull og löngu tímabær áform um að stórbæta þá stöðu nú og á næstu missirum.

Það var að koma út skýrsla sem sagt er frá í nýju veftímariti um þróunarmál frá samtökunum Save the Children um vaxandi ójöfnuð í heiminum, að hann hafi ekki verið meiri í tvo áratugi og að gjáin milli ríkra og fátækra stækki óðum og bitni mest á börnum. Þá kemur fram í skýrslunni að bilið á milli ríkra og fátækra barna hafi aukist um 35% frá árinu 1990 og í mörgum fátækum ríkjum sé dánartíðni barna tvöfalt hærri en meðal ríkra þjóða. Margt annað fróðlegt kemur fram í þessari skýrslu sem er svo sannarlega verðugt viðfangsefni fyrir Alþingi og kallar á umræður hér í tengslum við ríkisfjármál og ýmislegt annað og stöðu okkar í heiminum gagnvart hinum fátækustu þjóðum.

Jafnframt kemur fram í skýrslunni að rannsóknin leiddi í ljós að ójöfnuðurinn gagnvart börnum er ekki bundinn við lágtekjuþjóðirnar heldur eiga börn tekjulítilla foreldra í ríkum löndum við önnur og meiri vandamál að stríða en börn efnaðra foreldra, t.d. varðandi sjón, heyrn, tal og hreyfigetu. Margt annað mjög fróðlegt og sláandi er að finna í skýrslunni en líka þau ánægjulegu tíðindi að Sameinuðu þjóðirnar skipuðu sjálf sérstakan hóp um framtíð baráttumála gegn fátækt og á hann að vera sérstakt viðbragðsteymi sem markar spor til að uppræta fátækt á næstu áratugum.

Nokkrar aðrar staðreyndir sem er að finna í skýrslunni eru þær að fimmtungur barna í þróunarríkjunum lýkur ekki grunnskólanámi, 200 milljón ungmenni 15–24 ára í þessum löndum hafa ekki lokið námi og eitt af hverjum átta ungmennum í heiminum er án atvinnu og fjórðungur fastur í láglaunastörfum. Fjöldi annarra mjög fróðlegra og sláandi upplýsinga er að finna í þessari skýrslu (Forseti hringir.) sem heitir Fædd jöfn og er verðugt viðfangsefni fyrir okkur að fjalla um hér og ræða þegar við mörkum Íslandi stöðu í heiminum á næstu missirum.