141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

störf þingsins.

[15:33]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Rösk fjögur ár eru frá því að Ísland fór á hliðina og við þekkjum afleiðingarnar. Rústabjörgunin hefur tekist vel. Ég held að langflestir séu sammála um það þó að enn séu mörg verkefni fram undan við að laga samfélagið að því sem það vill verða.

Ég er ákaflega stoltur yfir því að leið jöfnuðar hafi verið valin við að reisa samfélagið aftur við. Þannig á að standa að verki, hlífa þeim efnaminnstu en ganga fremur á þá sem eiga meiri eignir. Það var gert á leið okkar upp úr rústunum og hefur eftir því verið tekið víða um lönd.

Nú um stundir leggja menn fram stefnumál sín í upphafi kosningavetrar og er athyglisvert að sjá hvaða leið sjálfstæðismenn vilja fara í þeim efnum. Það er út af fyrir sig virðingarvert að þeir séu þegar búnir að leggja fram hluta af tillögum sínum. Þeir vilja til dæmis að efnameira fólk fái forgang til mennta með því að leggja niður Lánasjóð íslenskra námsmanna. Þeir vilja menninguna meira og minna burt, þeir vilja einungis einkafjölmiðla en afnema almannaþjónustu í útvarpi og sjónvarpi með niðurlagningu ríkissjónvarpsins. Tillögur þeirra, sem hér hafa komið fram með sparibauk á forsíðu, munu þýða um það bil 20 þúsund störf út í hafsauga. Mér reiknast til að þessar tillögur, sem heita Sýn um ráðdeild, kosti um það bil 20 þús. landsmenn vinnuna. Sérstaklega er ráðist á landsbyggðina með því að leggja niður niðurgreiðslur til húshitunar og skógræktar. (Forseti hringir.) Hér má nefna sóknaráætlun landshluta, Jöfnunarsjóð sveitarfélaga eina 15 milljarða o.s.frv.

Þessar tillögur, sem út af fyrir sig er virðingarvert að leggja fram, munu kosta á þriðja tug þúsunda (Forseti hringir.) Íslendinga vinnuna. Þetta er ágætisframlag.