141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

afleiðingar veiðigjaldsins.

[15:43]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ein stærsta gjöf sem móðir náttúra veitir Íslendingum aðgang að eru fiskstofnarnir á auðugum miðum kringum landið. Sú auðlind er vissulega háð náttúrulegum takmörkunum og hún verður ekki að auðlind nema hvort tveggja sé til staðar, að nýtingu hennar sé skynsamlega stjórnað, hún sé vernduð og hún byggð upp og að sjálfsögðu að einhverjir séu til að nýta hana. Stjórnvöld hljóta eðli málsins samkvæmt að hafa það hlutverk með höndum að stýra nýtingunni, gera nauðsynlegar ráðstafanir auðlindinni til verndar og, í ljósi þess að um það er orðin nokkur rík þjóðarsamstaða að þjóðin á þessa auðlind saman, stjórni því að hvaða marki arður af nýtingu hennar rennur til eigandans, þjóðarinnar.

Það má segja að þetta hafi verið undirstrikað með mjög skýrum hætti í þjóðaratkvæðagreiðslu á dögunum þegar 82,5% þeirra sem afstöðu tóku svöruðu spurningunni játandi, spurningunni um það hvort menn vildu að í nýrri stjórnarskrá yrðu náttúruauðlindir sem ekki væru í einkaeigu lýstar þjóðareign. Forsenda veiðigjalda, almennra sem sérstakra, er auðvitað, að minnsta kosti hin sérstaka, að renta myndist við nýtingu auðlindarinnar, að tekjur séu umtalsvert meiri en tilkostnaður að meðtalinni eðlilegri ávöxtun fjármagns.

Það fer varla á milli mála, og fyrrverandi sjávarútvegsráðherra getur varla neitað því, að gríðarlega mikil renta hefur myndast í íslenskum sjávarútvegi undanfarin ár. Það eru alger metár að þessu leyti í greininni. Það mun nálgast 80 milljarða kr. ef að líkum lætur, miðað við nýjustu greiningar, sem framlegðin verður á árinu í ár. Það þýðir að yfir 65 milljarða framlegð stendur eftir í greininni þrátt fyrir um það bil 13 milljarða nettóveiðigjöld.

Hver var framlegðin á árunum sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson var fyrst sjávarútvegsráðherra? Á verðlagi þeirra ára að vísu var hún 30 milljarðar 2005 og 33 milljarðar 2007. Það verður, með verðlagsmuninn í huga, hátt í tvöfalt meiri framlegð eftir í sjávarútveginum í ár og á næsta ári þrátt fyrir töku veiðigjalda en var árin sem hv. þingmaður var sjávarútvegsráðherra þegar þetta var í miklum botni og í miklum mínus. Engu að síður var sjávarútvegurinn á þeim árum að skuldsetja sig mikið, kaupa veiðiheimildir á himinháu verði þrátt fyrir ekki meiri framlegð en þetta.

Hið sérstaka veiðigjald er lagt á á grundvelli afkomu greinarinnar eins og hún er að besta mati, eins nálægt í samtíma og ákvörðunin býður upp á, með framreikningi þeirrar afkomu sem síðast liggur fyrir. Það er líka mjög mikilvægt að formúlan sé næm á afkomu greinarinnar. Það sem ég hef meiri áhyggjur af nú um stundir heldur en því hvort heimilt sé að taka 13 milljarða út úr 80 milljarða framlegð sjávarútvegsins, eins og hún verður líklega á árinu, eru hlutir eins og þeir ef markaðsaðstæður eru að versna, og þar er að þyngja fyrir fæti, og vissulega hitt, sem er rétt, að þetta kemur misjafnt niður. Það þarf að þróa þessa aðferðafræði þannig að andlag veiðigjaldanna, og sérstaklega hins sérstaka veiðigjalds, sé í ríkari mæli mismunandi flokkar útgerða og jafnvel tegunda sem nýttar eru. Það er boðað og kom í greinargerð frumvarpsins þegar það var lagt fram að að þessu er stefnt. Fyrsta skrefið var stigið með lögunum í sumar þar sem lagt er sérstaklega á uppsjávarveiðar og bolfiskveiðar hins vegar.

Skuldafrádrátturinn mun gagnast mjög mörgum þeim litlu og meðalstóru bolfiskveiðifyrirtækjum sem eru skuldug vegna kaupa á veiðiheimildum frá undanförnum árum. Nú stefnir í, miðað við greiningu á því, að sá skuldafrádráttur verði meiri en menn áætluðu í vor. Ég held að við þurfum að sjá hver niðurstaðan af því verður og í hve miklum mæli þetta lagar stöðu þeirra fyrirtækja sem ella hefðu átt erfiðast með að bera gjaldið. Veiðigjaldanefndin hefur hafið störf. Hennar hlutverk er meðal annars að vinna greiningarvinnu af þessu tagi, að koma með tillögur um það er gera þarf breytingar á, einhvers staðar að lækka eða fella niður veiðigjald, segjum í rækju, og hún hefur frumkvæðisskyldu í þeim efnum. Hún á lögum samkvæmt að eiga víðtækt samráð við hagsmunaaðila og sérstaka nefnd, ráðgjafarnefnd þingflokka, þannig að ég tel að reynt sé að sjá fyrir því eins vel og kostur er.

Varðandi mat greinarinnar sjálfrar á stöðunni nú eftir að veiðigjöldin hafa verið lögð á (Forseti hringir.) er fróðlegt að athuga fréttaflutning af því tagi að verið sé að kaupa veiðiheimildir á um og yfir 2.000 kr. þorskígildiskílóið þrátt fyrir tilkomu veiðigjaldanna. (Forseti hringir.) Það segir vissa aðra sögu um mat greinarinnar sjálfrar á framlegðinni eftir sem áður í greininni að menn skuli vera tilbúnir til að borga veiðiheimildir því verði.