141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

afleiðingar veiðigjaldsins.

[15:49]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni fyrir að taka þetta mál til umfjöllunar og ég tek undir allflest það sem fram kom hjá málshefjanda. Við framsóknarmenn bentum á í vor, og allir umsagnaraðilar, sérfræðingar, sveitarfélög og ASÍ svo nokkrir séu nefndir, að þetta væri vonlaus aðferðafræði, þ.e. þessi meðaltalsaðferðafræði, og hún mundi leiða til gjaldþrota smærri útgerða og samþjöppunar. Á það hlustuðu ríkisstjórnarflokkarnir ekki.

Við framsóknarmenn börðumst fyrir því meðal annars að sýndur yrði meiri sveigjanleiki í fyrstu gjalddögunum. Á það var heldur ekki hlustað. En hvað hefur komið á daginn? Nú hafa menn með því að seinka útgáfu reglugerða orðið að verða við því að sýna meiri sveigjanleika í þessum fyrstu gjalddögum. Við framsóknarmenn höfum talað fyrir því að það sé eðlilegt og skynsamlegt að leggja á hóflegt veiðigjald en ekki það veiðigjald sem hér er lagt til. Hæstv. ráðherra segir að það muni verða í framtíðinni, það sé þróun, en verður það ekki fullseint?

Í sumar og núna í haust hef ég heimsótt fjölmarga af þeim smærri útgerðaraðilum sem hafa sagt: Hvað á ég að gera þegar gíróseðillinn er kominn? — Í sumum tilvikum var gíróseðillinn þegar kominn. — Á ég að greiða bankanum, sem hingað til hefur tekið allt það sem ég hef áorkað í mínu fyrirtæki, eða á ég að greiða ríkinu? Ef ég greiði ekki ríkinu þá missi ég veiðileyfið og er þar með hættur störfum. Ef ég greiði ekki bankanum þá er bankinn með mig algjörlega í höndunum, enn meira en hingað til.

Það hefði auðvitað verið skynsamlegra að setjast yfir þetta áður en menn lögðu af stað í þessa vegferð og finna út réttu aðferðafræðina. Við þessa smærri útgerðaraðila vil ég einfaldlega segja: Reynið að þrauka veturinn, þessu verður breytt.