141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

afleiðingar veiðigjaldsins.

[15:56]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það var ömurlegt að hlusta á hæstv. atvinnu- og nýsköpunarráðherra áðan, ömurlegt að hlusta á samkvæmisleikreglurnar sem hann fjallaði um í sambandi við sjávarútveg Íslendinga, fjöregg íslensku þjóðarinnar.

Það er ótrúlegt að hæstv. ráðherra skuli leyfa sér og sýna af sér þann kjark að sitja í þingsal án þess að verða dreyrrauður af skömm yfir þeirri stefnu sem hann framfylgir í sjávarútvegsstefnu þjóðarinnar. (Gripið fram í.) Það er allt slíkt löngu gleymt hjá hæstv. ráðherra, allt gleymt, og hann baðar sig í kinnapúðri Evrópusambandsins sem hann makar á sig á hverjum degi og sleikir út um, hæstv. forseti.

Veiðigjaldinu er stillt upp núna, það er fallöxi á sjálfstæði í fjármálastöðu íslensku þjóðarinnar. Það er leitt að gamalgrónir kommúnistar kunni ekkert annað en að búa til höft og vandamál þegar kemur að því að hugsa til framtíðar og vinna inn í framtíðina.

Sú stefna sem ríkisstjórnin fylgir er illa ígrunduð í skjóli pólitísks bögglauppboðs með tómum pökkum þegar að er gáð. Það er sérkennilegt að ríkisstjórnin skuli leyfa sér að halda áfram á þeirri braut þegar allir hagsmunaaðilar til sjós og lands, auk allra sérfræðinga úr háskólageiranum og víðar, hafa eindregið varað við áformum ríkisstjórnarinnar.

Heift ríkisstjórnarinnar í garð landsbyggðarinnar er skemmdar- og hryðjuverk og á ekki að líðast, ætlunin er að draga landsbyggðina niður í svaðið. Ríkisstjórnin metur landsbyggðarfólk sem annars flokks fólk, þræla. Íslenskur sjávarútvegur mun ekki standast samkeppni við aðrar þjóðir og þá verður eymdin ekki bara hjá landsbyggðinni heldur þjóðinni allri.

Virðulegi forseti. Þá verður auðvelt að gera okkur að hreppsómögum (Forseti hringir.) í Evrópusambandinu (Forseti hringir.) eða jafnvel að troða okkur inn í Kína sem hreppsómögum þar.