141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

afleiðingar veiðigjaldsins.

[15:58]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Virðulegur forseti. Það er eitt sem undrar mig og hefur oft gert í umræðum um sjávarútveg, bæði sem fyrrverandi starfsmaður þar, var í þeirri grein í aldarþriðjung, hvað mönnum er tamt að tala niður til greinarinnar. Tala illa um hana, tala illa um sjávarútveginn, ætla honum alltaf allt hið versta. Þetta á sannarlega ekki við um alla, ég er ekki að segja það, en í þessum þingsal hefur oft verið talað illa um sjávarútveginn. Hann talaður niður til dæmis í dag. Um hvað hefur verið rætt? Um að útgerðin ráði ekki við að standa undir lágmarksgjaldi vegna nýtingar á sameiginlegri auðlind. Að veiðar af tilteknum tegundum muni leggjast af. Að tiltekin útgerðarmunstur muni leggjast af. Að yfir vofi gjaldþrot, jafnvel þjóðargjaldþrot. Og verið sé að fremja hryðjuverk, stjórnvöld séu að fremja hryðjuverk á íslensku þjóðinni.

Hvernig leyfa menn sér að tala svona til aðal- og mikilvægustu atvinnugreinar þjóðarinnar? Hvers konar framkoma er þetta gagnvart greininni? (Gripið fram í.) Hafa menn enga sómatilfinningu, enga tilfinningu gagnvart því um hvað lífið í landinu snýst? (ÁJ: Þú heyrir vitlaust …) Menn hafa verið sér til skammar í þessari umræðu í dag, margir hverjir, þó ekki allir, ég tek það fram. Ég vil ekki trúa því að menn séu að tala frá eigin brjósti heldur sé þeim ekki sjálfrátt þegar þeir tala á þennan hátt. Og þeir taki það til sín sem vilja. Menn eiga að láta af slíku tali. Algjörlega.

Það er gríðarleg fjárfesting í íslenskum sjávarútvegi, hefur aldrei verið meiri. Frá miðju ári 2011 hefur íslenskur sjávarútvegur fjárfest fyrir á bilinu 30–40 milljarða kr. Er það framtíðarsýn greinarinnar að hér sé allt að fara fjandans til? Að hún sé að fara á hausinn? Að stjórnvöld séu að fremja hryðjuverk á íslensku samfélagi?

Virðulegur forseti. Ég hafna þeim málflutningi, vísa því til föðurhúsanna sem hefur verið sagt í þá veru og hvet hv. þingmenn til að sýna sjávarútveginum virðingu í tali sínu.