141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

afleiðingar veiðigjaldsins.

[16:03]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Veiðigjaldið er lagt á svo fólkið í landinu njóti arðs af auðlindinni. Þetta er sanngjörn ráðstöfun sem þróa þarf útfærslu á og sníða af vankanta. Flestar hagræðingaraðgerðir í útgerðinni á undanförnum árum hafa einnig haft kostnað í för með sér á öðrum stöðum. Bæjarstjórinn í Vestmannaeyjum benti réttilega á, þegar Eyjamenn stóðu frammi fyrir því nýverið að horfa á eftir útgerðarfyrirtækinu Bergur-Huginn, að sveitarfélagið og íbúar þess bera oftast kostnaðinn við hagræðinguna. Ágóðinn af henni rennur annað.

Sú mikla hagræðing sem íslenskur sjávarútvegur hefur ráðist í á undanförnum árum hefur meðal annarra ástæðna orðið til þess að í greininni hefur myndast mikill hagnaður, hagnaður sem er meiri en krafist er af venjulegum rekstri. Hann kemur til vegna sérleyfis til nýtingar á náttúruauðlind í þjóðareigu. Þessi auðlindaarður ætti með réttu að skila sér til íbúa þeirra byggða sem borið hafa kostnaðinn af hagræðingunni. Afrakstur veiðigjaldsins í ár og næsta árs verður nýttur til að flýta samgöngubótum á landsbyggðinni, til eflingar Rannsóknasjóðs og Tæknisjóðs og til sóknaráætlunar landshluta. Nú hafa hins vegar komið fram hugmyndir um að hluti gjaldsins renni beint til sjávarbyggða. Sveitarfélög stofnuðu nýverið með sér félag í þessu skyni og hyggjast ræða við ríkisvaldið um skiptingu á veiðigjaldinu. Þeirri þróun fagna ég.

Virðulegur forseti. Taka ætti beiðni Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga vel og skoða gaumgæfilega með þeim hvernig íbúum sjávarbyggða væri loks leyft að njóta ávinnings af hagræðingunni. Afleiðingar veiðileyfagjaldsins sem hér er rætt yrðu til þess að bæta búsetuskilyrði og auka þjónustu við íbúa sjávarbyggða.