141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

afleiðingar veiðigjaldsins.

[16:08]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég held að eitt sé ljóst, og mér heyrist við vera sammála um það, a.m.k. ég og hv. málshefjandi, að áframhaldandi hækkun gamla veiðigjaldsins hefði verið ótækur kostur. Það er að sjálfsögðu strax fólgin framför í því að tvískipta því og leggja sérstaklega á uppsjávarveiðar og bolfiskveiðar. En við erum líka sammála um að þróa þarf þá aðferðafræði nánar og að því er stefnt.

Ég held að ástæða sé til að minna á það, svo við ræðum þessa hluti ekki í tómarúmi, að ríkisfjármálaáætlun til meðallangs tíma byggir meðal annars á því að þjóðin fái og ríkissjóður fyrir hennar hönd í vaxandi mæli arð eða rentu af auðlindum sínum og það hjálpi til við að gera ríkisfjármálin sjálfbær. Það er til dæmis gert með auknum arðgreiðslum Landsvirkjunar. Það er gert með sérstökum veiðigjöldum. Þau eiga að skila 9–10 milljörðum kr. árlega í ríkisfjármálaáætlunina til ársins 2015. Síðan var tekin sú ákvörðun að að því marki sem auðlindarentan gæfi umfram það yrði öllum þeim fjármunum varið beint í uppbyggingarverkefni, í að flýta samgönguframkvæmdum, Norðfjarðargöngum, í framhaldi af því Vestfjarðagöngum, endurnýja Herjólf, leggja aukið fé í rannsóknarsjóði og leggja aukið fé í sóknaráætlanir landshlutanna. Ég held að það sé allt í lagi fyrir menn að hafa þetta að minnsta kosti með í umræðunni um þessi mál. Það er verið að reyna að ná jöfnuði í ríkissjóði annars vegar og hins vegar að koma af stað brýnum uppbyggingarverkefnum.

Ég legg aftur áherslu á það sem ég hef sagt. Það er mikilvægt að fylgjast grannt með þróun afkomu greinarinnar og vinna að því að byggja upp gagnagrunn til að flokka betur sjávarútveginn sem andlag álagningar gjaldsins. Sömuleiðis hljótum við að vakta grannt þróun viðskiptakjaranna og vera tilbúin að bregðast við ef þar sígur á ógæfuhliðina.