141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[16:15]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum nú atkvæði um rannsókn á einkavæðingu bankanna, Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands hf. og er það löngu tímabært eins og hv. þm. Skúli Helgason sagði hér áðan.

Einkavæðing bankanna er af mörgum og jafnvel flestum talin upphafið að ógæfunni, að hruni bankanna með þeim miklu og alvarlegu afleiðingum sem það hafði fyrir heimilin í landinu, fyrir atvinnulífið og fyrir efnahag landsins í heild.

Einkavæðingin er og verður sígilt dæmi um spillingu og óeðlilegt samspil stjórnmálaflokka og viðskiptalífs. Ekki mun gróa um heilt í íslensku samfélagi og við munum aldrei geta dregið lærdóm af því sem gerðist hér haustið 2008 nema við höfum heildarmyndina fyrir framan okkur. Þess vegna er mjög mikilvægt að við samþykkjum þá tillögu um rannsókn á einkavæðingu bankanna sem hér liggur fyrir.