141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[16:16]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það að það er fagnaðarefni að þessi tillaga er nú loks komin hér til afgreiðslu. Það er mjög mikilvægt að heildarmynd sé dregin upp af þeirri einkavæðingu sem átti sér stað 2002 og áhrifum hennar í framhaldinu. Það þarf að ná utan um allar aðgengilegar upplýsingar og gögn sem hvorki fjölmiðlamenn né fræðimenn hafa getað nálgast þar sem þau hafa verið hjúpuð dulúð og leynd. Draga þarf ályktanir og niðurstöður af þessari úttekt sem við fáum vonandi sem allra fyrst í hendur. Sú niðurstaða og skýrsla þarf að vera leiðarvísir fyrir framhaldið sem liggur fyrir að þingið mun taka afstöðu til varðandi frekari sölu á þeim ríkiseignum sem eru í bönkunum í dag.

Varðandi breytingartillöguna sem hv. þm. Vigdís Hauksdóttir hefur lagt fram þá er það sértæk tillaga, hún er eðlisólík þeirri tillögu sem hér er efnislega til afgreiðslu. Ég get fallist á margt í þeirri tillögu en laga þarf til efni hennar og texta og flytja hana sem sértæka tillögu til að ég geti greitt henni atkvæði.