141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[16:25]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það er sjálfsagt mál að ráðast í þriðju stóru rannsóknina á einkavæðingu bankanna sem átti sér stað fyrir 10–15 árum og hlýtur þá að vera gert til þess að læra enn meira af reynslunni, læra enn betur hvernig menn geti hagað málum sem best í framhaldinu. En þá hlýtur líka samkvæmt því að vera óhugsandi að menn á sama tíma hafni því að rannsaka seinni einkavæðingu bankanna enda er þar um að ræða rannsókn á hlutum sem enn standa yfir, hlutum þar sem enn er hægt að nota reynsluna og þekkinguna sem út úr rannsókninni kæmi til að grípa inn í og lágmarka tjón.

Þó að bankarnir hafi verið seldir á sínum tíma, fyrir 10–15 árum, á fáeina milljarða, er ljóst að seinni einkavæðingin hefur að öllum líkindum valdið tjóni sem nemur mörg hundruð milljörðum, tjóni sem ekki hvað síst er fjármagnað af skuldsettum íslenskum heimilum. Það er mikilvægt á meðan nokkur kostur er að reyna að bæta það tjón og þá að læra hvað fór úrskeiðis og læra af þeirri reynslu þannig að tjónið megi lágmarka.