141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[16:38]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það sem ég vil fá að segja um þessa tillögu er að umtalsverður munur er á afgreiðslu hennar og annarra þeirra rannsókna sem Alþingi hefur samþykkt að fara í. Þegar rannsóknarnefnd Alþingis var skipuð með lögum voru allir sammála því sem afgreiddu málið hér. Það sama gildir um rannsóknina sem var samþykkt varðandi Íbúðalánasjóð, þá var vilji til að ná saman um hvað ætti að rannsaka þar og allir þingmenn sem voru viðstaddir studdu atkvæðagreiðsluna. Síðan er þriðja rannsóknin sem við höfum samþykkt að fara í, þá tóku 63 þingmenn undir að rannsaka ætti sparisjóðina og þegar það var afgreitt frá Alþingi voru allri þingmenn sem voru viðstaddir sammála því að fara í þá rannsókn. Það stefnir greinilega í það að svo verði ekki um þessa rannsókn og það er mjög miður.

Ég vil líka minna á að það er önnur rannsókn sem 63 þingmenn samþykktu að fara í, þ.e. á lífeyrissjóðunum, en við erum ekki að afgreiða hana hér í dag.