141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[16:39]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Seinni einkavæðing bankanna var framkvæmd án nokkurrar umræðu á Alþingi og án þess að breytingar hefðu verið gerðar á starfsumhverfi banka og annarra fjármálafyrirtækja eða lögum um fjármálafyrirtæki í kjölfar hrunsins. Á haustdögum 2010 var tekin sú ákvörðun að afhenda lánardrottnum Kaupþings og Glitnis umsvifalaust nýju bankana. Þessi ákvörðun var tekin án nokkurs faglegs mats, verðmats eða útboðs. Því verður að fara fram rannsókn á seinni einkavæðingunni samhliða þeirri fyrri. Ekkert er því til fyrirstöðu að þingmenn samþykki þessa breytingartillögu vegna orða stjórnarliða hér í gær, þ.e. ef þeir vilja jafnframt rannsaka seinni einkavæðinguna.

Ég ætla að flytja þinginu þær fréttir að nú þegar er verið að vinna þingsályktunartillögu í mínu nafni á nefndasviði og ef þessi tillaga verður felld núna kem ég til með að leggja hana (Forseti hringir.) fram sem nýtt þingmál og býð þá meiri hlutanum í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að vera meðflutningsmenn á (Forseti hringir.) tillögunni til að farið verði tafarlaust í rannsókn á seinni einkavæðingu (Forseti hringir.) bankanna.

Ég segi já við þessari tillögu.