141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

rannsókn á einkavæðingu banka.

50. mál
[16:46]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Árið 2005 sagði þingmaður Samfylkingar í þessum ræðustól:

„Sala bankanna var að sönnu mjög umdeild á sínum tíma. Hitt er óefað að hún leysti mikinn kraft úr læðingi í atvinnu- og efnahagslífinu. Þetta er hin jákvæða hlið efnahagsmálanna í dag.“

Þetta var þingmaður Samfylkingarinnar 2005.

Nú vilja samfylkingarmenn ekki kannast við það að þeir hafi verið mjög hrifnir af því þegar bankarnir voru einkavæddir á grundvelli EES-samningsins sem þeir lögðu svo mikla áherslu á að yrði samþykktur. Það eru fyrst og fremst þingmenn Samfylkingarinnar, (Gripið fram í.) útrásarflokksins sjálfs, sem eru nú að reyna að þyrla upp ryki til þess að afvegaleiða þjóðina enn og aftur.

Herra forseti. Ef menn vilja fara enn og aftur í að rannsaka þá einkavæðingu sem þarna varð hljóta menn að efna það loforð sem þeir hafa gefið í þessum ræðustól um að rannsaka einnig það sem hefur gerst á síðustu vikum, mánuðum og árum. Ég tala nú ekki um að styðja okkur sem viljum rannsaka hið óheppilega Icesave-mál og hvernig ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna reyndu að troða mörg hundruð milljörðum ofan í kokið á þjóðinni.