141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

skilgreining auðlinda.

35. mál
[17:37]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir andsvar hans. Rétt hjá honum, auðlindir koma og fara. Dæmi um nýjar auðlindir er makríllinn sem synti inn í lögsögu okkar nú fyrir skemmstu. Hann gæti hæglega synt burt þannig að þá væri hann dæmi um auðlind sem kom og fór á mjög skömmum tíma. Annað fór frá okkur vegna ofveiði, t.d. geirfuglinn, kúluskíturinn í Mývatni er að hverfa, síldin fór o.s.frv. Á sama tíma taka við nýjar auðlindir eins og opnun siglingaleiða á norðurslóðum, hugsanleg olía á Drekasvæði o.fl.

Það má vel vera að orðalagið í tillögugreininni sé ekki nógu lýsandi og það er þá hv. umhverfis- og samgöngunefndar að breyta því, þegar ég tala um „með tæmandi hætti“. Það sem ég var að hugsa með því að setja þetta þarna inn var að skilgreint yrði með tæmandi hætti hvað væru auðlindir hér á landi þegar frumvarpið yrði smíðað og þá væri hægt, eins og ég fór yfir í ræðunni, að bæta við nýjum auðlindum um leið og þær mundu birtast eða koma til okkar.

Varðandi losunarkvótann er auðlindaréttur mjög skemmtileg fræðigrein og gaman að ræða um auðlindamál yfir höfuð. Það er rétt sem hv. þingmaður fór yfir að sumar auðlindir verða ekki að verðmætum fyrr en þær eru takmarkaðar og nefndi hann þar kvótakerfið. Við getum líka talað um kvótakerfi í mjólkuriðnaði og akkúrat losunarheimildarkvótann sem var búinn til. Ég vil benda á að hérna er sérkafli um hvað auðlindir eru, á bls. 3, og þar inni er ég með andrúmsloftið, andrúmsloftið sem viðtaka útblásturs sem myndar þá verðmætu auðlind sem er nú komin á Evrópumarkað, í það minnsta í formi losunarheimilda (Forseti hringir.) sem koma til með að ganga kaupum og sölum til (Forseti hringir.) framtíðar en því miður afsalaði núverandi ríkisstjórn sér losunarkvóta okkar, (Forseti hringir.) sem við fengum í gegnum íslenska ákvæðið, til Evrópusambandsins.