141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

skilgreining auðlinda.

35. mál
[17:41]
Horfa

Flm. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. Pétri H. Blöndal um að margir ræða auðlindir og vita ekki hvað felst nákvæmlega í því hugtaki. Þetta mál er þess vegna lagt hér fram til að hægt sé að mynda heildstæða yfirsýn yfir hugtakið auðlind, hverjar þær eru og hvernig ber að nýta þær.

Það er áhugavert að þingmaðurinn fór akkúrat yfir þá hugsun að við takmörkun auðlinda myndast verðmæti og svaraði ég því lítillega hér áðan, eins og þegar kvótakerfið í fiskveiðum var sett á þá var það gert vegna ofveiði. Auðlindirnar verða að vera varðar fyrir ofnýtingu á þann hátt að ríkisvaldið grípi inn í með því að takmarka nýtingu af þeim og gefa þá út einhvern nýtingarrétt sem byggist á reynslu, t.d. veiðireynslu í tilfelli sjávarútvegskerfisins, mjólkurinnleggsreynslu í málefnum kúabænda og loftslagskvóta sem við vorum hér með og takmörkuðum með íslenska ákvæðinu og var byggður upp á mengunarreynslu, þ.e. sá kvóti sem við fengum fyrir utan íslenska ákvæðið sem var sérstaklega samið um vegna þess að við erum með stóriðju sem mengar lítið. Ég kom því ekki að í svarinu áðan en það var akkúrat þetta íslenska ákvæði sem ríkisstjórnin gaf eftir til Evrópusambandsins vegna þess að umsóknin að Evrópusambandinu liggur nú inni. Árið 2007 reiknaði ég út hve verðmætt íslenska ákvæðið væri fyrir íslenskt þjóðarbú og þá voru það 15 milljarðar. Nú væri gaman fyrir stærðfræðinginn hv. þm. Pétur H. Blöndal að uppreikna það til dagsins í dag.

Takmörkunin skapar þessi verðmæti sem við köllum í daglegu tali í auðlindarétti „nýtingarrétt“ og myndar (Forseti hringir.) með tímanum eignarrétt þannig að í auðlindafræðum er eignarrétturinn (Forseti hringir.) kallaður nýtingarréttur. Ég skal ræða það betur í síðari umr. þegar þetta mál verður (Forseti hringir.) aftur á dagskrá.