141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

skilgreining auðlinda.

35. mál
[18:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið en þetta er að verða mjög áhugavert. Nýting bænda á jörðum sínum byggir á allt öðru sjónarmiði en nýting sjómanna á hafinu. Bændur njóta eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar, nákvæmlega eins og ég með bílinn minn og húsið mitt o.s.frv. og innstæðuna mína, ég nýt eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar. Við höfum búið til ríki til að framfylgja því að það eignarréttarákvæði sé haldið. Til þess höfum við lögreglu, til þess höfum við dóma og slíkt. Þetta er eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Bændur rækta sínar kartöflur, og ég má ekki taka þær upp. Ég má ekki ganga inn á lönd bænda og slátra fé eða uppskera gras. Þetta er eignarrétturinn.

Hins vegar er nýtingarrétturinn á auðlind sjávar sem menn byggja reyndar á veiðireynslu, eins og hv. þingmaður sagði, afleiðing af takmörkun sem ríkið stóð fyrir. Ríkið ákvað að takmarka aðgang að sjávarauðlindum á Íslandi — hefði getað látið það vera — til að þetta yrði ekki allt verðlaust. Ef ríkið hefði ekki takmarkað með kvótakerfinu 1984 hefði þetta allt orðið verðlaust. Sú er alla vega trú margra.

Með þeirri takmörkun urðu til verðmæti sem ekki voru endilega háð því hvað menn höfðu lagt mikið í að búa til betri skip o.s.frv., heldur vegna takmörkunarinnar. En svo gerast merkilegir hlutir og nú fer þetta að verða mjög skemmtilegt, frú forseti. Þegar búið er að takmarka aðganginn og einhverjir hafa aðgang eftir einhverjum reglum og þeir hinir sömu fara að beita hugviti til að bæta arðinn enn meira þá vaknar þessi spurning: Er það vegna takmörkunarinnar sem sú renta verður til, eða er það vegna mannauðsins sem settur er í þetta og vegna fjárfestingarinnar? Þetta verður mjög áhugavert.

Við ræddum í dag um veiðigjald sem á að vera eins konar greiðsla fyrir auðlindarentuna, en stór hluti af þeirri rentu er einmitt mannauðurinn sem menn hafa lagt í þessa grein. Menn vita kannski ekki, frú forseti, að í sjávarútvegi á Íslandi er óskaplega mikill mannauður, mikið sérfræðivit og sérfræðiþekking. Vandamál okkar til framtíðar er að ákvarða hve stór hluti af arði sjávarútvegsins er vegna auðlindarinnar sem helgast af takmörkuninni og hve stór hluti vegna þess sem búið er að leggja í atvinnugreinina, sem allt eykur arðinn. Það sama á við um allar aðrar atvinnugreinar eins og verslun o.s.frv., þar eru menn stöðugt að setja inn mannauð til að auka hagnaðinn. Þetta er vandinn.

Ég er alveg sammála því sem hv. þm. Illugi Gunnarsson sagði með fiskveiðistjórnarkerfið, það er náttúrlega kapítuli út af fyrir sig. Mér skilst að menn hafi gleymt afskriftum í kerfinu. Eiginlega er gert ráð fyrir að ríkið skaffi skipin, allar byggingarnar og netin og ég veit ekki hvað, allt það þarf að sjálfsögðu að afskrifa. Það er risastór veila í kerfinu fyrir utan það að kerfið er eitt fyrir alla, meðaltalskerfi, sem mun valda því að eftir á að giska hálft ár verður komin sérregla um karfa og sérregla fyrir þorsk og ufsa, vegna þess að menn treysta ekki markaðnum til að búa til verðið. Það er ráðuneytið sem býr til auðlindarentuna. Þá vil ég minna á frumvarp sem ég flutti um að dreifa kvótanum á þjóðina og býr til algjöran markað alls staðar.