141. löggjafarþing — 31. fundur,  7. nóv. 2012.

skilgreining auðlinda.

35. mál
[18:09]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta verður sífellt áhugaverðara. Nú er það þannig að sumir líta á landið sem eign þjóðarinnar. Það geri ég ekki. Ég lít á landið sem eign þeirra sem eru þinglýstir eigendur. Þetta er afmarkað. Þetta er girt. Það er hægt að finna nákvæmlega út hvaða skika hver á. Þannig að ég lít svo á að menn eigi þetta nákvæmlega eins og menn eiga bara eitthvað annað, íbúð eða bíl eða hvað það nú er, menn eigi það óskorað. Það er engin hugsun um það að þjóðin eða ríkið eigi á einhvern hátt landið. En að sjálfsögðu geta menn haft deildar meiningar um það. Sumir geta haft þá skoðun eins og kommúnistar að ríkið eigi í raun allt landið og bara eigi yfirleitt allt, bílinn líka og húsið. Ég er ekki á þeirri skoðun. Ég virði eignarréttinn mjög mikils og er ánægður með að í nýjum drögum að stjórnarskrá er einmitt óbreytt ákvæði um eignarréttinn.

Þannig að ég tel að bændur eigi sína jörð og ekkert múður með það, frú forseti, ef ég má orða það þannig. Þetta er aðgreint og allt mjög greinilegt hvað þeir eiga og hvað þeir eiga ekki. Það er annað með auðlindir sjávar, vegna þess að nauðsyn bar til þess að takmarka þann aðgang. Vandamálið sem við stöndum frammi fyrir í dag þegar við förum að meta auðlindarentuna er hve stór hlutur af henni er vegna takmörkunarinnar og hve stór hluti er vegna tækniframfara sem atvinnugreinin sjálf er búin að búa til.